Þrír nýir metanstrætisvagnar bætast í flota Strætisvagna Akureyrar en samningur þess efnis var undirritaður í gær. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri segir í samtali við RÚV að Akureyri eigi að sýna gott fordæmi og kaupa ökutæki sem noti eldsneyti sem framleitt er á staðnum.
Þá kemur fram á vef RÚV að umhverfisvænum ökutækjum í eigu Akureyrarbæjar hafi fjölgað undanfarna mánuði. Bærinn á ferlibíla sem knúnir eru metani og áætlanir eru um að fjölga slíkum bílum.
Metan er unnið úr hauggasi á gömlu sorphaugunum á Glerárdal og selt í sjálfsafgreiðslustöð á Akureyri. „Og það var eðlilegt skref fyri bæinn að sýna gott fordæmi með því að vera með metanbíla til þess að nýta þá framleiðslu sem við erum hvort sem er með sjálf," segir Eiríkur Björn í samtali við RÚV.
Metanvagnarnir sem eru af gerðinni Scania Citywide munu kosta um 120 milljónir króna. Samkvæmt samningnum sem undirritaður var í gær mun Akureyrarbær í fyrstu aðeins leigja einn vagnanna. Að loknum tólf mánaða reynslutíma fær bærinn kauprétt á vagninum og auk þess opna á mögleika á að kaupa tvo vagna til viðbótar á tveimur árum.