Samningur um námsver á Dalvík undirritaður

Í dag undirrituðu Svanfríður Jónasdóttir f.h. Dalvíkurbyggðar og Arna Jakobína Björnsdóttir f.h.  Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar, SÍMEY,  samning um rekstur námsversins á Dalvík. Ráðinn verður starfsmaður hjá SÍMEY í 50%  starf við námsverið á Dalvík  frá 1. ágúst 2009, en gert er ráð fyrir að það starfshlutfall geti vaxið vegna nýrra verkefna frá SÍMEY og/eða aukinnar starfsemi í námsverinu.
 

Markmið samningsins eru:
að vinna markvisst að uppbyggingu námsversins á Dalvík sem miðstöðvar símenntunar við utanverðan Eyjafjörð.
að efla símenntun og auka framboð námskeiða á starfsvæði Símey, með áherslu á Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð
að bjóða uppá aðstöðu til fjarnáms fyrir einstaklinga og hópa
að bjóða uppá námsaðstöðu fyrir framhalds- og háskólanema
að vinna með fyrirtækjum að aukinni menntun og fagþekkingu starfsmanna
að auka þjónustu námsráðgjafa við einstaklinga og fyrirtæki
að boðið sé upp á aðstöðu til að taka fjarpróf við námsverið

Námsverið er í Gamla skóla við Skíðabraut á Dalvík.  Dalvíkurbyggð rekur húsnæðið og leggur til aðstöðu fyrir starfsmann. Nokkurra ára reynsla er komin á rekstur námsvers á Dalvík og binda samningaðilar vonir við að þetta samkomulag verði til að efla það starf enn frekar og þar með símenntun við utanverðan Eyjafjörð, ásamt því að leiða til aukinnar fjölbreytni í framboði á námskeiðum á vegum SÍMEY.

Nýjast