Samið verði við KA og Þór um rekstur leikja- og íþróttaskóla

Á síðasta fundi samfélags- og mannréttindaráðs Akureyrarbæjar var rætt um sumartilboð á vegum samfélags- og mannréttindadeildar fyrir börn og tók Bergljót Jónasdóttir forstöðumaður tómstundamála þátt í umræðunni. Samfélags- og mannréttindaráð samþykkti að sumarið 2012 verði eins og áður samið við íþróttafélögin KA og Þór um rekstur leikja- og íþróttaskóla sem verði í boði fyrir og eftir hádegi í báðum félögunum. Ennfremur kemur fram í bókun ráðsins að fyrir liggi að endurskoða frítímastarf barna á ársgrundvelli. Á vegum skólanefndar er verið að setja saman vinnuhóp í því skyni.

Á fundi samfélags- og mannréttindaráðs var jafnframt tekin fyrir beiðni frá Kristjáni Bergmann umsjónarmanni Ungmenna-Húss um að Ungmenna-Húsið fái til ráðstöfunar þá fjármuni sem lagðir hafa verið í skapandi sumarstörf í gegnum sumarvinnu 17-25 ára. Ungmenna-Húsið geti þá hagað skapandi sumarstörfum þannig að þau nýtist þátttakendum betur. Alfa Aradóttir forstöðumaður æskulýðsmála sat fundinn undir þessum lið. Samfélags- og mannréttindaráð tók vel í erindið og vísaði því til bæjarráðs.

 

Nýjast