Samherji hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins

Kristina EA, skip Samherja. Mynd: Þorgeir Baldursson.
Kristina EA, skip Samherja. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Samherji hf. hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 2011 sem veitt voru við formlega athöfn fyrr í dag. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri fyrirtækisins, veittu verðlaununum viðtöku úr hendi Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, sagði m.a. í ræðu við þetta tilefni: „Samherji sendir í dag út um 700 launaseðla í hverjum mánuði hér á landi. Erlend fyrirtæki sem Samherji á hlut í hafa nú á hálfu ári gert samninga við íslensk iðnfyrirtæki fyrir um 900 milljónir króna. Það er því óhætt að segja að samfélagslegu áhrifin af starfsemi Samherja eru gífurleg hér á landi."

Samherji er í dag alþjóðlegt sjávarútvegs- og matvælaframleiðslufyrirtæki og hefur þá sérstöðu að vera með stærri hluta af umsvifum sínum utan Íslands. Síðustu tvö ár verið Samherja sérstaklega hagfelld og fjárfestingar félagsins í Frakklandi, á Spáni og í Kanada þegar skilað félaginu tekjum. Samherji hefur einnig aukið bein umsvif sín hér á landi, nú síðast með kaupum á Útgerðarfélagi Akureyrar fyrr á árinu. Ef undan er skilin smíði smábáta hefur ekki verið gerður samningur um smíði nýs íslensks fiskiskips frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Þorsteinn Már gerir þetta að umtalsefni í viðtali við Áramót, blað Viðskiptablaðsins.

„Nú er verið að smíða eitt skip fyrir Íslendinga sem samið var um fyrir fimm árum en afhending hefur tafist vegna jarðskjálftans í Chile. Norðmenn hafa á hinn bóginn gert samninga um nýsmíðar í fiskiskipaflota sínum fyrir yfir 100 milljarða íslenskra króna síðustu 12 mánuði. Það sýnir í raun hver aðstöðumunurinn er," segir Þosteinn. Hann segir síðar í viðtalinu: „Fjárfestingar í sjávarútvegi almennt séð eru mjög litlar, því miður. Það væri hægt að skapa fjölda starfa á Íslandi við verkefni tengd endurnýjun flotans - ótrúlega mörg störf."

Stærstur hluti starfsemi Samherja hf. er erlendis og á undanförnum árum hafa stjórnendur fyrirtækisins öðlast reynslu af atvinnurekstri í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Hvernig horfir hugsanleg aðild að ESB við Þorsteini Má? „Eins og Evrópusambandið horfir við mér þá munum við ekki hafa nein áhrif þar. Sumir halda því fram að við munum hafa áhrif í sjávarútvegsmálum því Íslendingar séu svo stórir. Þetta er alrangt. Hvorki Þjóðverjar, Pólverjar, Englendingar né aðrir ætla að láta okkur hafa sérstök áhrif í sjávarútvegsmálum umfram það sem segir í reglum Evrópusambandsins. Ég horfi á þett út frá reynslu minni því ég hef unnið að sjávarútvegsmálum innan ESB í vel á annan áratug. Afstaða mín mótast af því."

Þetta kemur fram á vef Landssbands íslenskra útvegsmanna, liu.is.

Nýjast