Fram kom á fundinum að launakjör starfsmanna hjá Saga Capital væru sambærileg eða lægri en launakjör hjá núverandi ríkisbönkum og að enginn starfsmaður eða framkvæmdastjóri bankans hefði nýtt sér kauprétt á hlutum í bankanum. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, fór yfir starfsemi bankans á síðasta ári og helstu niðurstöður úr uppgjörinu. Bankinn tapaði 3,7 milljörðum á síðasta ári sem rekja má beint til bankahrunsins síðasta haust. Þorvaldur Lúðvík benti á að samkvæmt endurskoðuðu 9 mánaða uppgjöri Saga Capital, sem birt var aðeins nokkrum vikum fyrir bankahrunið, hafi reksturinn verið í góðu jafnvægi, CAD eiginfjárhlutfall staðið í 53% og stefnt í tæplega 300 milljóna hagnað yfir árið. Ljóst væri að hefði staðan ekki verið svo góð sem raun bar vitni síðasta haust hefði bankinn vart geta staðið þetta mikla kerfishrun af sér. Aðalfundurinn samþykkti að færa tap síðasta árs til lækkunar á eigin fé bankans sem lækkar þá í 6,2 milljarða og CAD eiginfjárhlutfallið í 15%. Umsókn Saga Capital um viðskiptabankaleyfi er í meðförum Fjármálaeftirlitsins en Þorvaldur Lúðvík sagði að, að því fengnu muni bankinn marka sér sess sem banki atvinnulífsins, fyrirtækjabanki með breiðan þjónustugrunn, eignastýringu og aukna ráðgjöf.
Halldór Jóhannsson, stjórnarformaður Saga Capital, fór nokkrum orðum um atburði síðasta árs, sem var fyrsta heila rekstrarár bankans. ,,Hér hefur allt í senn gerst, gjaldeyriskreppa, bankakreppa og efnahagskreppa og ofan á þetta hefur bæst stjórnmálaleg óvissa," sagði Halldór sem sagði að við þetta hafi sá markaður sem bankinn hugðist starfa á við stofnun minnkað verulega og breyst, og allt innra starf bankans og áherslur muni taka mið af þessum breytingum næstu mánuði og misseri. Halldór benti á að fjármálafyrirtæki sem ríkið kæmi ekki að með einum eða öðrum hætti væru nú teljandi á fingrum annarrar handar og sagði óhjákvæmilegt að þeim muni fækka þegar fram í sækir, þar sem ríkið muni ekki reka þrjá einsleita viðskiptabanka auk þess að eiga ráðandi hlut í flestöllum sparisjóðum landsins. ,,Við teljum að Saga Capital muni spjara sig í þessu breytta umhverfi og hafa margt fram að færa gagnvart sínum viðskiptavinum," sagði Halldór.
Eggert Árni Gíslason, framkvæmdastjóri Mötu hf. og Gunnar Þór Guðmannsson, framkvæmdastjóri Vogavers ehf. voru kjörnir nýir inn í stjórn Saga Capital Fjárfestingarbanka á aðalfundinum. Þrír stjórnarmenn sitja áfram, þeir Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA og sitjandi stjórnarformaður, Jóhann Antonsson, ráðgjafi og Sindri Sindrason, stjórnarformaður Eimskipafélags Íslands. Þetta kemur fram á vef Saga Capital.