Safnasafnið Alþýðulistasafn Íslands á Svalbarðsströnd, hlaut Eyrarrósina en Dorrit Moussaieff forsetafrú afhenti viðurkenninguna og verðlaunagripinn á Bessastöðum í dag. Eyrarrósin er sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni og var nú veitt í áttunda sinn. Verðlaunafé er að upphæð 1,5 milljónir króna og verðlaunagripurinn er eftir Steinunni Þórarinsdóttur myndlistarkonu. Þrjú verkefni voru tilnefnd til Eyrarrósarinnar í ár, Safnasafnið á Svalbarðsströnd, Sjóræningjahúsið við Patreksfjörð og Tónlistarhátíðin Við Djúpið á Ísafirði.
Safnasafnið stendur við þjóðveg eitt rétt utan við Akureyri, í gamla Þinghúsinu á Svalbarðsströnd. Safnið opnaði árið 1995 og vinnur metnaðarfullt brautryðjendastarf í söfnun og varðveislu á íslenskri alþýðulist. Safnið tengir saman alþýðulist og nútímamyndlist af alúð og kímni og vinnur ávallt í nánu samstarfi við samfélagið í kring.