Sækja um fjárstyrk til að greiða fyrir viðgerð á Akureyrarkirkju

Ummerkin sjást enn á Akureyrarkirkju en vonast er eftir því að hægt verði að skipta um klæðningu næs…
Ummerkin sjást enn á Akureyrarkirkju en vonast er eftir því að hægt verði að skipta um klæðningu næsta vor. Mynd/Þröstur Ernir

Sóknarnefnd Akureyrarkirkju hefur sótt um fjárstyrk til Jöfnunarsjóðs kirkjunnar og húsfriðunarsjóðs Minjastofnunar Íslands vegna skemmda sem unnar voru á Akureyrarkirkju snemma árs og eru umsóknirnar í ferli.

Álit matmanns á skemmdum kirkjunnar er sú að setja þurfi nýja klæðningu sem er framkvæmd upp á 12-14 milljónir að sögn Ólafs Rúnars Ólafssonar formanns sóknarnefndar Akureyrarkirkju. „Við eigum ekki fjármagn til að fara í svo dýrar framkvæmdir og því þurfum við aðstoð,“ segir Ólafur.

Það var í byrjun janúar sem spreyjað var á kirkjuna allskyns ófögrum orðum sem sneru flest að andúð á trúarbrögðum og heimspeki. Mest var spreyjað á framhlið og suðurhlið kirkjunnar. Einnig var spreyjað á Kaþólsku kirkjuna, Glerárkirkju og Hvítasunnukirkjuna og tókst að fjarlægja ummerkin á þeim kirkjum. Sami maðurinn var að verki sem játaði verknaðinn. Enn sjást hins vegar ummerki á Akureyrarkirkju.

„Það er enn ekkert farið að gera að neinu viti og auðvitað bagalegt að þurfa hafa skemmdirnar fyrir augum ennþá. En það er lítið við því að gera,“ segir Ólafur. Hann segist vonast eftir því að framkvæmdir við nýja klæðningu hefjist næsta vor. „Það veltur allt á því hvort við fáum fjárstyrki. Ef svo fer þá verður þetta eitt af vorverkunum, en annars gerum við ekki neitt,“ segir Ólafur.

Fjórum myndavélum með upptökubúnaði hefur verið komið fyrir á Akureyrarkirkju en um mótvægisaðgerðir eru að ræða vegna skemmdarverkanna. Myndavélarnar eru kirkjunni að kostnaðarlausu en fyrirtækið Netkerfi og tölvur gaf kirkjuna umræddan myndavélabúnað.

Nýjast