SA tapaði fyrir SR í fyrsta leik liðanna um úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitillinn í íshokkí karla.
Eftirfarandi umfjöllun er fengin að láni af heimasíðu íshokkísambandsins, www.ihi.is en nánar verður sagt frá
þessum leik ásamt viðureign SA og SR sem fram fer á miðvikudagskvöldið í Vikudegi nk. fimmtudag.
Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur áttust við á Akureyri í fyrsta úrslitaleik íslandsmótsins í
íshokkí í gær. Leiknum lauk með sigri SR-inga sem gerðu 6 mörk gegn 5 mörkum heimamanna. Leikurinn var skemmtilegur á að horfa og hart barist
allt fram á síðustu sekúndu.
Norðanmenn í SA tóku forystuna strax á annarri míníntu með marki frá Einari Valentine eftir stoðsendingu frá Birni Má Jakobssyni.
Gauti Þormóðsson jafnaði leikinn fyrir SR-inga með laglegu skoti efst í markhornið án þess að markmaður SA-manna kæmi nokkrum
vörnum við. Aftur náðu norðanmenn forystunni eftir að SR-ingar höfðu hætt sér of framarlega á völlinn einum leikmanni færri.
Það var Jón B. Gíslason sem skoraði markið og var þetta síðasta mark lotunnar og staðan því 2 – 1 heimamönnum í
vil.
Í annarri lotu hélt baráttan áfram en SR-ingar urðu fyrri til að skora en þar var á ferðinni Egill Þormóðsson. Tvisvar sinnum
náðu norðanmenn forystu í lotunni eftir það, en SR-ingar jöfnuðu jafn harðan. Bæði mörk SA-manna skoraði Steinar Grettisson en fyrir
SR-ingar voru það Egill Þormóðsson og Daniel Kolar sem skoruðu. Staðan eftir aðra lotu var því 4 – 4 og leikurinn í
járnum.
SR-ingar tóku hinsvegar frumkvæðið í markaskoruninni á réttum tíma því að í byrjun 3ju lotu kom Gauti
Þormóðsson þeim yfir með góðu marki og staðan því 4 – 5. Stuttu síðar fengu SR-ingar víti eftir að Steinar
Páll Veigarsson hafði komist einn inn fyrir vörn SA-manna og brotið var á honum. Daníel Kolar tók vítið en náði ekki að skora.
Þess í stað jöfnuðu SA-menn metin með marki frá Jón B. Gíslasyni þegar rétt um sex mínútur lifðu leiks. En
það var fyrirliði SR-inga, Steinar Páll Veigarsson sem skoraði sigurmarkið þegar rúmar 3 mínútur voru til leiksloka og þar við
sat.
Næsti leikur verður í Skautahöllinni í Laugardal á miðvikudaginn klukkan 19.00. Ef hann verður í einhverri líkingu við leikinn í
gær, geta áhorfendur átt von á mikilli og góðri skemmtun.