Rúmlega 90% bera mikið traust til Sjúkrahússins á Akureyri

Sjúkrahúsið á Akureyri nýtur mikils trausts á meðal almennings. Mynd/Auðunn Níelsson.
Sjúkrahúsið á Akureyri nýtur mikils trausts á meðal almennings. Mynd/Auðunn Níelsson.

Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) hélt uppi góðri þjónustu á öllum sviðum starfseminnar á árinu 2017. Áfram var haldið við að stytta biðlista þar sem þörfin var brýn sem og biðtíma eftir aðgerðum. Reksturinn gekk  almennt vel og mjög mikil ánægja ríkti með þjónustu sjúkrahússins, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Gallup vann fyrir Sjúkrahúsið á meðal skjólstæðinga þess og aðstandenda þeirra, og fram kemur í tilkynningu frá SAk.

Niðurstöðurnar voru kynntar á ársfundi Sjúkrahússins sem haldin var í gær. „Þetta er góður vitnisburður um það starf sem hér er unnið. Slíkt er engan veginn sjálfgefið og að baki liggur mikið starf þeirrar samhentu sveitar sem hér starfar,“ er haft eftir Bjarna Jónassyni, forstjóra SAk. Könnunin var framkvæmd á tímabilinu frá 15. nóvember 2017 til 5. janúar 2018. 90,2% aðspurðra bera ýmist fullkomið traust (20,3%), mjög mikið traust (41,7%) eða frekar mikið traust (28,2%) til Sjúkrahússins á Akureyri. Þá sögðust 92,6% þeirra sem nýttu sér þjónustu þess vera ánægð með hana.

Aðeins Landhelgisgæslan nýtur meira trausts

Markmiðið með könnuninni var að mæla traust almennings á starfssvæði Sjúkrahússins á Akureyri ásamt því að mæla afstöðu þeirra sem hafa nýtt sér þjónustu sjúkrahússins. Úrtakið var 1.553 manns í póstnúmerum 540 til 765,18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup, og var þátttökuhlutfallið 73,7%. „Í skýrslu Gallup er niðurstaðan hvað varðar traust til Sjúkrahússins á Akureyri borin saman við niðurstöður um traust sem almenningur ber til annarra stofnana samfélagsins eins og þær mældust í Þjóðarpúlsi Gallup í febrúar 2017. Landhelgisgæslan ein mælist með meira traust en SAk en auk þeirra mælast einungis Lögreglan og Embætti forseta Íslands með yfir 80% traust almennings,“ segir í tilkynningu.

Ívið meiri starfsemi á árinu

Starfsemin var ívið meiri að umfangi á flestum sviðum á Sjúkrahúsinu á Akureyri en í fyrra. Í biðlistaátaki velferðarráðuneytisins voru gerðar 156 gerviliðaaðgerðir eða 10 fleiri en árið áður. Skurðaðgerðir voru álíka margar og árið áður, legudögum fjölgaði um 1,5% og sjúklingum á legudeildum um 1,2%. Meðallegutími var 4,6 dagar. Fæðingum fækkaði um 12 frá fyrra ári en 377 konur fæddu 383 börn á árinu. Einingar vegna göngudeildarþjónustu lækna voru 828 þúsund og fjölgaði um 1,4%. Komum sjúklinga á dagdeildir fjölgaði um 1,6% og sjúkraflug jókst enn, nú um 19,3% og voru flugin 798. Almennar rannsóknir jukust um 11,5% á milli ára og starfsemi og þjónusta apóteks jukust um 2,4%. Á bráðamóttöku var komufjöldi sá sami og árið 2016 en komum til heilsugæslulækna sem hafa aðsetur á bráðamóttöku utan dagvinnutíma fjölgaði um 15% milli ára.

 

Nýjast