Sunnudaginn 11. mars nk. verður haldin í fyrsta sinn á Akureyri, fluguveiði kvikmyndahátíð undir nafninu RISE. Hátíðin er alþjóðleg og samtímis því að vera haldin á Íslandi, bæði í Reykjavík og á Akureyri, eru sýningar í öllum stærstu borgum Evrópu. Hátíðin er til þess fallin að gera svokölluðum ævintýra fluguveiðikvikmyndum hátt undir höfði en enska skilgreiningin er; adventure driven fly fishing films. Þessi flokkur kvikmynda vex hratt og úrvalið verður alltaf meira og meira ásamt því að kvikmyndagerðarmennirnir verða alltaf betri og betri í því sem þeir gera.
Aðalsprauta hátíðarinnar er Nick Reygaert kvikmyndagerðarmaður búsettur á Nýja Sjálandi. Nick er kannski þekktastur hér á landi fyrir mynd sem hann tók upp á Íslandi og ber nafnið; The Source Ísland. Sú mynd var sú þriðja og síðasta í The Source þríleik sem sýndi veiði á Nýja Sjálandi, Tasmnaníu og Íslandi.
Nýjasta mynd Nick, Hatch, er aðalmynd hátíðarinnar í ár og er fyrsta fluguveiði kvikmyndin sem tekin er upp á RED kvikmyndatökuvél. Slíkar vélar þykja ákaflega vel heppnaðar og útkoman er hreint stórkostleg. Dagskráin að þessu sinni er ekki af verri endanum en alls eru sýndir hlutar úr fimm mismunandi fluguveiði kvikmyndum. Í ár er mikið lagt upp úr silungsveiði og þá sérstaklega þurrfluguveiði en einnig er sýnd fluguveiði á geddum með svokölluðum popper flugum og útkoman er ótrúleg. Dagskrána, ásamt sýnishornum úr myndunum má finna inni á heimasíðu hátíðarinnar: www.rise.icelandangling.com Eins og áður segir fer þessi sýning fram þann 11. mars á Akureyri og verður haldin á Sportvitanum við Strandgötu. Sýningin hefst kl. 20:00 en húsið opnar að minnsta kosti hálftíma fyrr. Miðasala fer fram á heimasíðu Stangveiðifélags Akureyrar: www.svak.is