„Reykjavíkurflugvöllur fer ekkert næstu árin eða áratugina“

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur.

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær var rætt um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar, neyðarbraut og nýja flugstöð.

Fram hefur komið í fréttum undanfarið að Jón Gunn­ars­son, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra vill byggja hyggst skipa starfs­hóp sem falið verður að meta flug­vall­ar­kosti fyrir inn­an­lands­flug og ætlar að hafa full­trúa lands­byggð­ar­innar í þeim hópi. Ráð­herr­ann von­ast til þess að hægt verði að hefja fram­kvæmdir við nýja flug­stöð í Vatns­mýri á næsta ári þar sem hann telur að miðstöð innanlandsflugs sé í Vatnsmýri.

Bæjarráð Akureyrar fagnar þessu hugmyndum samgönguráðherra. „Núverandi flugstöð er úr sér gengin og á engan hátt boðleg sem slík. Það er mikilvægt að geta boðið flugfarþegum og starfsfólki góða aðstöðu, ekki síst í ljósi hugmynda um eflingu innanlands flugsins,“ segir í bókun frá fundi bæjarráðs. Jafnframt kemur fram í bókuninni að bæjarráð telur það ljóst Reykjavíkurfluvöllur verði um kyrrt í Vatnsmýri næstu árin eða áratugina.

Þá ítrekaði bæjarráð bókun sína frá 5. Janúar á þessu ári ljósi úrskurðar Samgöngustofu um lokun Neyðarbrautarinnar svokölluðu. Í bókuninni er bent á að í Reykjavík sé eina hátæknisjúkrahús landsins og að lífsnauðsynlegt sé að þangað  sé alltaf greið leið með sjúklinga hvaðan af landinu sem þeir koma. „Það er því ófrávíkjanleg krafa bæjarráðs Akureyrarkaupstaðar að Neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar verði opnuð aftur þar til önnur og jafngóð lausn finnst. Bæjarráð skorar á borgarstjórn Reykjavíkurborgar, innanríkisráðherra og Alþingi að stuðla að því að svo geti orðið,“ segir í bókuninni.

Vilja fjármagn í flughlaðið

Þá voru framkvæmdir við nýtt fluglað við Akureyrarflugvöll einnig ræddar á fundinum. Bæjarráð telur stækkun flughlaðsins vera mikið öryggismál vegna vaxandi flugumferðar til og frá Íslandi og bendir á í því samhengi að; öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hafi í þessu sambandi bent á mikilvægi Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvalla. „Þá er flughlaðið grundvöllur vaxandi flugstarfsemi á Akureyrarflugvelli sem mun styrkja og efla atvinnulíf og byggð á Norðurlandi öllu,“ segir í bókun bæjarráðs um málið.

Nýjast