Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hvetur Borgarstjórn Reykjavíkur eindregið til að opna tafarlaust aftur NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli, svokallaða neyðarbraut, meðan ekki hefur fundist önnur viðunandi lausn. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Eyjafjarðarsveitar.
„Öllum má ljóst vera að lending á neyðarbrautinni hefur skipt sköpum varðandi sjúkraflug utan af landi, oft í erfiðum tilfellum þar sem um líf eða dauða er að tefla. Lokun neyðarbrautarinnar er ógn við öryggi og heilsu þeirra sem búa og starfa utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir í tilkynningunni.
Þá skorar sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar á stjórnvöld að sýna því skilning að málefni flugvallarins í Reykjavík er ekki einkamál Borgarstjórnar Reykjavíkur. „Flugvöllurinn í Reykjavík er eitt mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar. Reykjavík er höfuðborg og verður að kannast við hlutverk sitt sem slík og því fylgja ekki bara réttindi heldur einnig skyldur við allt landið,“ segir jafnframt í tilkynningunni.