Stjórn fjölmiðlafyrirtækisins N4 hefur gefið heimild til að leita að auknu hlutafé inn í fyrirtækið. Fréttablaðið greindi fyrst frá þessu í vikunni. Jón Steindór Árnason, stjórnarformaður N4, segir í samtali við Vikudag að töluvert fé vanti inn í reksturinn svo hann geti haldið sjó.
Rekstur N4 stóð ekki undir sér síðustu sex mánuði í fyrra og því þurfti að grípa til uppsagna og skipulagsbreytinga á rekstri félagsins. Stærstu hluthafar N4 eru KEA og fjárfestingarsjóðurinn Tækifæri sem meðal annars er í meirihlutaeigu Stapa lífeyrissjóðs, KEA og Íslenskra verðbréfa. Stjórn N4 hefur fengið heimild til að auka hlutaféð um 50 milljónir en fyrirtækið velti um 200 milljónum á síðasta ári.
Jón Steindór segir að fyrirtækið sé langt komið í viðræðum um aukið hlutafé og niðurstöðu sé að vænta í lok vikunnar. „Við byrjuðum að leita til núverandi hluthafa. Viðræður hafa gengið nokkuð vel en við tökum ákvörðun í vikulok,“ segir Jón Steindór. „Við teljum okkur hafa náð betri tökum á rekstrinum eftir þær hagræðingaraðgerðir sem við fórum í,“ segir Jón Steindór, en er hann bjartsýnn á að N4 nái að halda velli? „Ég er hóflega bjartsýnn.“
Árið í fyrra það erfiðasta
N4 hefur fært út kvíarnar undanfarin ár og verið með þætti frá öðrum landshlutum á landsbyggðinni, auk þess að gefa út sérstakt landsbyggðarblað sem dreift var í stóru upplagi en hefur nú verið hætt. Spurður hvort fólk hafi farið fram úr sér svarar Jón Steindór:
„Ég veit ekki hvort menn hafi endilega farið framúr sér. Útgjöld hafa heilt yfir hafa staðist þokkalega en sannleikurinn er sá að rekstrarumhverfi fjölmiðla er erfitt. Síðasta ár var sérstaklega strembið og mun erfiðara en það sem við höfum kynnst hingað til. Starfsemin er metnaðarfull og sýnin hjá N4 hefur verið sú að þetta sé ekki beint lókal miðill hér á Akureyri heldur nái til allra landsmanna og sinni landsbyggðinni vel,“ segir Jón Steindór.