Sigurður segir að heldur minna magn hafi komið til vinnslunnar frá framleiðendum á þessu ári miðað við það síðasta. Framleiðendum hafi fækkað um þrjá en það komi ekki að sök því greðslumarkið hafi að mestu haldist innan svæðis. „Það hefur hægt mjög á þeirri fækkun kúabænda sem var fyrir nokkrum árum og mér sýnist allt benda til þess að í ár hætti mun færri en verið hefur á liðnum árum," segir hann. Verslun með greiðslumark á mjólk var stöðvuð af landbúnaðaráðuneytinu í vor en taka á upp nýtt fyrirkomulag, kvótamarkað að danskri fyrirmynd og verður fyrsta uppboðið haldið í desember nk. „Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel í Danmörku og ég vænti þess að svo verði einnig hér á landi. Breytingar eru auðvitað oft erfiðar, en ég vona að þegar menn hafa komist yfir þetta verði nýja kerfið betra en það sem fyrir er fyrir framleiðendur, virkara og gagnsærra og þá er meiningin með því að taka það upp einnig sú að jafna út verð, hæstu og lægstu toppana.
Sölusvæði MS Akureyri er frá Hrútafirði í vestri í Berufjörð í austri. Á því svæði búa um 44 þúsund manns. Mjólk er safnað frá ríflega 200 bændum frá Húnavantssýrslum, Eyjafirði og austur í Þingeyjarsýslu, en Húnvetningar bættust í hóp innleggjenda á liðnu ári. „Sala á afurðum gengur vel og almennt finn ég fyrir meiri bjartsýni en undanfarin ár, við kvörtum ekki. Reksturinn gengur vel og horfur eru góðar," segir Sigurður.
Hjá MS Akureyri vinna um 80 manns og er starfsstöðin sú þriðja fjölmennasta innan Mjólkur-samsölunnar. Tæknistig er hátt og mikið lagt upp úr að allt sé sem best verður á kosið á þeim vettvangi, þannig er fyrirtækið með eitt fullkomnasta stýrikerfi í mjólkurvinnslu í Evrópu.