Raunveruleikurinn spilaður í tíunda skiptið

Raunveruleikurinn hefst í dag og er nú spilaður í tíunda skiptið. Að þessu sinni eru það nemendur í 9. bekk sem fá að spreyta sig. Leikurinn verður spilaður frá 27. febrúar -25. mars og eiga allir nemendur í 9. bekk á landinu kost á að taka þátt í leiknum. Raunveruleikurinn er liður í stefnu Landsbankans að efla fjármálalæsi ungmenna. Raunveruleikurinn er gagnvirkur hermileikur, hannaður sem fjármála- og neytendafræðsla fyrir efstu bekki grunnskóla. Um er að ræða vefleik þar sem nemendur fá innsýn í þær ákvarðanir sem venjulegur þjóðfélagsþegn þarf að taka á lífshlaupi sínu og hvernig bregðast skuli við ólíkum tækifærum og hindrunum sem verða á vegi hans. Á þennan hátt setja nemendur sig í ákveðin spor og móta lífshlaup sitt í sem raunverulegustum aðstæðum, óháð raunverulegri stöðu sinni.

Raunveruleikurinn er keppni þar sem þátttakendur keppast fyrst og fremst við að komast af í hörðum heimi, ná endum saman, taka réttar ákvarðanir, þroskast og komast til metorða. Þeir fá stig samkvæmt ákveðnum leikreglum og sá sem flest stig fær stendur uppi sem sigurvegari að lokum. Leikurinn stendur yfir í fjórar vikur. Þátttakendur verða að skrá sig inn alla virka daga og vinna verkefni. Þeir þurfa að taka fjölda ákvarðana, fylgjast með fréttum, leita sér að vinnu og bregðast við öllu því sem á daga þeirra drífur, t.d. í hvað skal eyða peningunum, hvað  eigi að borða og leita að atvinnu.

Höfundur leiksins er Ómar Örn Magnússon en að baki Raunveruleiknum liggur margra ára  rannsókna-, hönnunar- og forritunarvinna sem unnin hefur verið af höfundi og vefdeild Landsbankans. Raunveruleiknum er ætlað að svara þörf fyrir nútímalegt og vandað námsefni fyrir unglinga í lífsleikni með áherslu á fjármála- og neytendafræðslu. Raunveruleikurinn hefur hlotið verðlaun Norrænu ráðherranefndarinnar sem besta námsefnið á þessu sviði.

 

Nýjast