Pétur Þór segir umræðu þá sem verið hefur að undanförnu að verið sé að taka Vaðlaheiðagöng fram fyrir Suðurlandsveg því mjög villandi. Þá sé ósmekklegt að stilla dæminu upp með því að telja upp fjölda slysa á hvorum vegi fyrir sig „Það sem skiptir sköpum varðandi það að hægt er að hefjast handa við Vaðlaheiðagöng er að við höfum lokið undirbúningsvinnu, hún hefur staðið yfir á liðnum árum og rannsóknargögn eru klár. Því er málið komið á það stig að unnt er að bjóða framkvæmdina út," segir Pétur Þór.
„Þá má líka benda á að um helmingur kostnaðar við gerð ganganna verður fjármagnaður með veggjöldum, þessi atriði gera að verkum að Vaðlaheiðagöng þykja fýsilegur kostur nú á þessum tíma." Þá bendir Pétur Þór einnig á að íbúar austan Vaðlaheiðar sæki í auknum mæli heilbrigðisþjónustu til Akureyrar og þar er einnig miðstöð flugsamgangna í héraðinu. Óvissa ríki yfir vetrartímann með samgöngur milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu, enda Víkurskarðið varasamt að vetrarlagi. Fólk austan Vaðlaheiðar þurfi líka að búa við ákveðið öryggi.
Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri á Akureyri segir að framkvæmdin muni ekki eingöngu verða til þess að bæta samgöngur til muna, hún þýði jafnframt ákveðna innspýtingu inní atvinnulífið á svæðinu meðan á henni stendur. Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju segir að umræða um gerð Vaðlaheiðaganga gefi byr í seglinn og að Kristján Möller samgönguráðherra eigi heiður skilinn fyrir að ýta verkefninu af stað.