Ránið í Fjölumboðinu og fleiri brot upplýst

Lögreglustöðin á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Lögreglustöðin á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Tæplega tvítugur piltur hefur játað við yfirheyrslur hjá lögreglunni á Akureyri að hafa framið rán í Fjölumboðinu að Geislagötu 12 á Akureyri þann 23. febrúar s.l. með því að ógna starfsmanni með úðabrúsa og taka peninga úr afgreiðslukassa. Pilturinn var handtekinn 25. febrúar eftir að hafa verið stöðvaður við akstur á óskráðri bifreið og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins þann 26. febrúar til þess 29. en látinn laus í gærkvöld og telst málið upplýst. Hann mun hafa haft um 5-600.000 krónur upp úr krafsinu. Ránsfengnum hafði hann m.a. eytt í fíkniefni, lyf og skuldir. Þessi aðili kom frá Reykjavík þann 22. febrúar sl. á stolnum bíl ásamt rúmlega tvítugum kunningja sínum en bílnum höfðu þeir stolið í Reykjavík og einnig bensíni á hann. Bílinn urðu þeir þó að skilja eftir í Skagafirði eftir að hafa fest hann og brotist þar inn í sumarbústað. Þangað voru þeir svo sóttir frá Akureyri. Eftir að annar hafði framið ránið á Akureyri tók hinn póstbíl traustataki þann 24. febrúar sl. sem skilinn hafði verið  eftir í gangi við hús á Akureyri. Hann braust inn í aðra bifreið og stal úr henni nokkrum smáhlutum og síðan inn í einbýlishús austan Akureyrar og stal þaðan talsverðum verðmætum. Hann var síðan handtekinn sama dag á Svalbarðsströnd eftir eftirför lögreglu og játaði brot sín og þýfið komst til skila. Báðir þessir piltar hafa komið við sögu lögreglu áður. Auk þess að vera báðir án ökuréttinda eru þeir báðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Nýjast