Rakel með þrennu í sigri Þórs/KA í kvöld

Þór/KA vann í kvöld öruggan 5-1 sigur á Aftureldingu/Fjölni er liðin mættust á Þórsvelli í 16. umferð Pepsi- deildar kvenna. Rakel Hönnudóttir skoraði þrennu fyrir heimastúlkur í leiknum og þær Arna Sif Ásgrímsdóttir og Katla Ósk Káradóttir sitt markið hvor. Aldís Mjöll Helgadóttir skoraði mark gestanna. Heimastúlkur gáfu tóninn strax í upphafi leiks þegar Rakel Hönnudóttir átti skot í þverslá á fyrstu mínútu leiksins.

Fyrsta mark leiksins kom síðan eftir aðeins fimm mínútna leik. Rakel Hönnudóttir fékk þá stungusendingu frá Mateju Zver inn fyrir vörn gestanna og skoraði af öryggi og kom heimastúlkum í 1-0. Rakel var svo aftur á ferðinni á 17. mínútu leiksins er hún fékk boltann í teig gestanna, lagði hann fyrir sig og skoraði með góðu skoti í fjærhornið. Staðan 2-0.

Eftir þetta misstu Þórs/KA stúlkur dampinn en þó ekki lengi því Rakel Hönnudóttir fullkomnaði þrennu sína í leiknum er hún skoraði þriðja mark Þórs/KA á 40. mínútu með þrumuskoti inn í teig. Staðan í hálfleik, 3-0.

Seinni hálfleikurinn var rólegur framan af. Afturelding/Fjölnir sótti í sig veðrið en tókst lítið að koma sér áleiðis gegn sterkri vörn Þórs/KA. Heimastúlkur fengu nokkur ágætis færi til þess að bæta við marki þegar líða tók á seinni hálfleikinn og átti Rakel Hönnudóttir m.a. skot í stöng. Það var svo á 69. mínútu leiksins að fjórða mark heimastúlkna leit dagsins ljós og það skoraði Katla Óska Káradóttir með fínu skoti af stuttu færi inn í teig gestanna eftir sendingu frá Rakel Hönnudóttur.  Staðan 4-0.

Þegar sjö mínútur voru til leiksloka bætti Arna Sif Ásgrímsdóttir við fimmta marki Þórs/KA. Vesna Smiljkovic, sem kom inn á sem varamaður, átti sendingu fyrir mark gestanna og Arna renndi boltanum auðveldlega í netið. Staðan 5-0. Aðeins tveimur mínútum síðar eða á 85. mínútu leiksins náðu gestirnir að minnka muninn í 5-1 með marki frá Aldísi Mjöll Helgadóttur af stuttu færi.

Lokatölur á Þórsvelli, 5-1 sigur Þórs/KA sem eftir leikinn hefur 36 stig í þriðja sæti deildarinnar.

Nýjast