Ráðist í endurbætur á húsnæði fæðingadeildar FSA

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Ráðist verður í endurnýjun á húsnæði fæðingadeildarinnar á Sjúkrahúsinu á Akureyri, FSA,  um miðjan mánuðinn og er gert ráð fyrir að þær taki tólf vikur. Helmingi af húsnæði fæðingardeildarinnar verður lokað meðan á því stendur. Frá og með 24. janúar munu fæðandi konur ekki nota fæðingarstofurnar tvær á fæðingardeildinni heldur verður tekið á móti börnum á legustofum deildarinnar.

Ástæðan er gagnger yfirhalning á fæðingarstofunun en að sögn Ingibjargar Jónsdóttur, yfirljósmóður á deildinni, eru framkvæmdirnar löngu orðnar tímabærar. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV. „Við erum mjög þakklát fyrir að hafa fengið fjárveitingu til þessa verkefnis og með þessu bætum við aðstöðu fæðandi kvenna og fáum ný og góð fæðingarbaðkör á báðar stofur og endurnýjun á mörgu sem er bara komið til ára sinna og orðið gamalt.“

Á meðan á endurbótunum stendur verður veruleg skerðing á plássi á deildinni og hugsanlega nokkurt ónæði. „Við höfum eflaust ekki aðstæður til þess að láta feður gista hérna og þurfum svona að hvetja konur frekar til þess að fara í heimaþjónustu og fara fyrr heim af deildinni. Þetta verður svolítið erfiður tími meðan þetta gengur yfir en það verður gaman þegar þetta verður búið, það verður frábært," segir Ingibjörg í frétt RÚV.

 

Nýjast