Því miður virðast þau stjórnmálaöfl, sem nú fara með völd í landinu, vera einbeitt í að nýta takmarkað pólitískt umboð sitt til að umbylta þjóðfélaginu. Stjórnarráðinu er umturnað og lagasetningarvaldi grímulaust beitt í þágu hugsjóna þeirra sem ráða þar ríkjum. Meira að segja skal bylta allri stjórnarskránni án þess að um slíkt sé sköpuð nokkur sátt í þjóðfélaginu. Í svona umróti höfum við verk að vinna og þurfum að leggja okkar af mörkum til þess að land og þjóð komi heil undan þessum pólitíska gerningavetri. Þannig lauk Örn Bergsson, formaður Landssamtaka landeigenda á Íslandi (LLÍ), skýrslu stjórnar á aðalfundi samtakanna síðastliðinn fimmtudag, 16. febrúar. Samtökin voru stofnuð fyrir 5 árum til að sameina krafta landeigenda gegn ríkisvaldinu í þjóðlendumálum og hafa barist ötullega fyrir málstað sínum. Næst liggur fyrir að óbyggðanefnd fjalli um Húnavatnssýslur. Hún gaf fjármálaráðherra frest til loka marsmánaðar til að skila inn þjóðlendukröfum ríkisins þar. Síðustu úrskurðir nefndarinnar tóku til Tröllaskaga, Skagafjarðar og vestanverðs Eyjafjarðar og nokkur mál eru í framhaldinu komin til kasta dómstóla eða eru á leið inn í dómskerfið.
Svört fortíðar- og forræðishyggja ráðherra
Landssamtök landeigenda fóru fljótlega eftir stofnun að láta mörg fleiri mál til sín taka en varðandi þjóðlendur, ekki síst gagnvart stjórnvöldum og Alþingi vegna áforma um að skerða hagsmuni og réttindi landeigenda með lagasetningu á ýmsum sviðum. Örn Bergsson vék þannig að frumvarpi til breytinga á jarða- og ábúðarlögum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra viðraði í fyrra. Örn sagði frumvarpið hafa falið í sér afturhvarf til svörtustu fortíðar- og forræðishyggju. Þar hefði hugtakið fæðuöryggi til dæmis verið notað í pólitískum tilgangi og væri því að óbreyttu dæmt til að hljóta sömu örlög og ríkisstjórnarfrasinn gengisfallni um skjaldborg heimilanna.
Fráleitar hugmyndir umhverfisráðherra
Formaður LLÍ gagnrýndi umhverfisráðuneytið harðlega fyrir að vera að breytast í bákn sem endalaust væri að undirbúa laga- og reglugerðarbreytingar sem allar hníga í þá átt að allir skapaðir hlutir verði bannaðir eða háðir leyfisveitingum sem Umhverfisstofnun verði heimilt að taka gjald fyrir. Hann vísaði þar ekki síst til fyrirhugaðra breytinga á lögum um náttúruvernd og til fyrirhugaðs banns við veiðum á fimm tegundum svartfugls: Það er algjörlega fráleitt að banna alla nýtingu á svartfuglshlunnindum meðan ríkisvaldið sinnir ekki lögboðnum skyldum við að halda varginum sem öllu eyðir í skefjum. Þar á ég að sjálfsögðu við mink og tófu.
Hugtakið þjóðareign marklaust í stjórnarskrártillögum
Enn má nefna að Örn Bergsson vék að drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og lýsti eindreginni andstöðu við að þau yrðu borin óbreytt undir þjóðaratkvæði. Landeigendur mótmæla því að náttúruauðlindum sé komið fyrir í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og enginn greinarmunur gerður þar á sjávarauðlindinni annars vegar og hins vegar öðrum auðlindum sem nú eru háðar fullum eignarrétti að lögum. Þá segja landeigendur að hugtakið þjóðareign sé marklaust í þessu samhengi. Þjóðin geti aldrei verið skráður eigandi auðlinda heldur fari ríkið lögum samkvæmt með umboð þjóðarinnar varðandi eignarhald landa og landsréttinda sem ekki séu háð einkaeignarrétti.
Stjórnin endurkjörin
Stjórn Landssamtaka landeigenda var endurkjörin. Hana skipa Örn Bergsson á Hofi í Öræfum, formaður; Guðný Sverrisdóttir á Grenivík, Sigurður Jónsson í Eyvindartungu, Óðinn Sigþórsson í Einarsnesi og Gunnar Sæmundsson í Hrútatungu.
Að aðalfundi loknum var efnt til málþings þar sem Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, flutti erindi um vernd eignarréttar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu og rétt landeigenda og Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður fjallaði um heimildir löggjafans til inngripa í stjórnarskrárvarin eignarrétt landeigenda.Troðfullur salur var út að dyrum á málþinginu og erindi tvímenninganna urðu kveikja að mörgum fyrirspurnum, athugasemdum og líflegum umræðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá LLÍ.