Stefán Guðnason og konan hans Sveindís Ósk Ólafsdóttir hafa þurft að bjarga sér með hjálp fjölskyldunnar síðustu 10 mánuði þar sem ekkert pláss hefur verið hjá dagforeldri á Akureyri fyrir tæplega tveggja ára dóttur þeirra. Þau hafa verið á biðlista eftir plássi hjá dagforeldri í um eitt ár en lítið gengið.
Daggæslumál á Akureyri hafa reglulega verið í umræðunni undanfarna mánuði þar sem skortur er á leikskóla- og dagvistunarplássum. Staða Stefáns og Sveindísar er eflaust lýsandi fyrir þann vanda sem fjölmargir eru í. Tengdamóðir Stefáns var með dóttur þeirra fram að áramótum svo þau gætu bæði sinnt sinni vinnu.
Eftir áramót tók Sveindís Ósk út sumarleyfið sitt til að geta verið með barninu og kláraði það 20. febrúar sl.
„Síðan þá hefur fyrirkomulagið verið þannig að ég hef verið heima með dóttur okkar fram að hádegi og svo hefur mamma mín eða tengdamamma mín tekið við. Þá fer ég í vinnuna fram á kvöld og vinn svo um helgar. Ég sé því eldri dóttur okkar lítið þar sem ég er farinn í vinnuna þegar hún kemur heim og svo er stutt í að hún fari að sofa þegar ég kem heim á kvöldin. Þetta er auðvitað ömurlegt,“
segir Stefán.
Hann segist heppinn að því leytinu til að geta hagað sínum vinnutíma sjálfur. „En það eru alls ekkert allir í þeirri stöðu. Vinafólk okkar t.d. eru í þeirri stöðu að konan er launalaus heima með yngra barnið þeirra.“
„Humma“ ekki vandann frá sér
Akureyrarbær hefur sagt að aðstæður sem hafa skapast hér séu fordæmalausar þar sem um 50 börn fluttust til bæjarins á skömmum tíma og fyrir vikið fór allt úr skorðum.
„En þá spyr maður sig, er ekki hægt að hafa kerfið betra en svo að það sé ekki reiknað með því að fólk flytji hingað í bæinn?“ segir Stefán. „Þegar mannfjöldaspá er reiknuð út frá fæðingartíðni í bæ sem er að byggja upp heilu hverfin og fjölga störfum, þá hlýtur fólk að sjá að þar er massívur reikningsfeill, feill sem hefur verið allt of lengi við lýði,“ segir Stefán.
Ítarlegra er rætt við Stefán og fjallað um daggæslumálin í prentútgáfu Vikudags.