Pétur Jónasson, sá magnaði ljósmyndari á Húsavík, er að flestra mati grandvar jafnréttissinni. En eitt sinn tókst honum að kvekkja verulega femínista og fleiri konur með lítilli auglýsingu. Pétur þurfti að kynna nýja tegund myndavéla sem hann var að reyna að selja og gerði það með auglýsingu í blaði. Þar var lögð áhersla á að myndavélin væri svo einföld og auðveld í notkun að hún væri því: „alveg tilvalin fyrir konur.“
Þetta misskildu einhverjar konur á þann hátt að hér væri karlrembusvínið Pétur að halda því fram að þessi „Imbamatic“ væri sérstaklega hönnuð fyrir hálfvita, það er að segja konur. Og málið endaði með því að ljósmyndarinn prúði var skikkaður til að standa fyrir máli sín í beinni útsendingu í svæðisútvarpinu og þurfti þar að verja hendur sínar og sverja af sér meinta kvenfyrirlitningu í auglýsingunni umdeildu.
Þessi eina auglýsing vakti reyndar meiri athygli á Ljósmyndastofu Péturs en samanlagt auglýsinga- og kynningarbrölt hans í áratugi. JS