Óvissuástandið haft verulega lýjandi áhrif á fólk

Starfsmenn Byrs á Akureyri búa við mikla óvissu.
Starfsmenn Byrs á Akureyri búa við mikla óvissu.

„Þessi óvissa er mjög erfið fyrir starfsmenn, við höfum búið við yfirvofandi óvissuástand til lengri tíma og hefur það verulega lýjandi áhrif á fólk,“ segir Sigrún Kristbjörnsdóttir stjórnarmaður í Starfsmannafélagi Byrs, en útibú Byrs og útibú Íslandsbanka á Akureyri verða sameinuð í febrúar á næsta ári, 2012. Alls starfa í dag 13 manns í útibúi Byrs á Akureyri sem eru í óvissu með störf sín. 

Um síðustu mánaðamót var  9 manns, sem störfuðu í bakvinnslu, sagt upp störfum, en þeir tilheyrðu höfuðstöðvum Byrs í Reykjavík.  Af þeim hópi eru 7 enn starfandi í útibúinu og verða fram í janúar.  Þá hefur útibússtjórinn, Örn Arnar Óskarsson sagt starfi sínu lausu og lét hann af störfum í vikunni. Starfsmenn vita ekki á þessari stundu hvað um þá verður, engar upplýsingar hafi spurst út um hversu margir af starfsmönnum Byrs fari hugsanlega yfir í Íslandsbanka við samrunann, en boðaðar hafi verið breytingar á starfsmannafjölda, hjá báðum þessum útibúum. 

Sigrún segir að viðbrögð viðskiptavina Byrs á Akureyri við tíðindunum séu misjöfn eins og gengur, „en margir okkar viðskiptavina sjá verulega eftir sparisjóðnum sínum,“ segir hún.  “Viðskiptavinir sína okkur mikinn samhug og hafa látið í ljós að þeir hafi áhyggjur af okkar framtíð.  Það líður ekki sá dagur að við fáum ekki góðar kveðjur og þær eru okkur mikils virði.“

Nýjast