Janúar var mjög líflegur hjá okkur, segir Ingibjörg Jónsdóttir deildarstjóri á fæðingadeild Sjúkrahússins á Akureyri en alls voru fæðingar 50 talsins í nýliðnum mánuði og fæddist 51 barn, því ein tvíburafæðing var í janúar. Undanfarin 10 ár hafa fæðingar í janúar verið að meðaltali 36. Ingibjörg segir að það hafi hentað vel að svo margar konur fæddu í janúar en breytingar standa nú yfir á deilinni. Framkvæmdir hófust 24. janúar og er gert ráð að þær standi yfir í alls 12 vikur. Það gengur allt vel og framkvæmdir eru á áætlun. Til að byrja með fylgdi þeim töluverður hávaði, þar sem m.a. var verið að brjóta niður veggi, en konurnar okkar eru ótrúlega skilningsríkar og kvarta ekki, segir Ingibjörg.
Verið er að endurnýja báðar fæðingastofurnar, stækka aðra þeirra, útbúa salernis- og sturtu aðstöðu inni á báðum fæðingastofunum, setja ný og dýpri baðkör/fæðingakör á báðar stofurnar því við vorum bara með grunnt kar á annari stofunni. Svo verður að sjálfsögðu málað, segir Ingbjörg. Þá verða innréttingar á barnastofunni endurnýjaðar og vinnuaðstaða starfsfólks endurbættm m.a. með tilliti til aukinnar rafrænnar skráningar.
Ingibjörg segir að vinna starfsfólks gangi sinn vanagang þrátt fyrir raskið, fæðingastofurnar voru fluttar í heilu lagi" inn á legustofur og það á ekki að koma niður á fæðingarþjónustunni. Hins vegar fækkar leguplássum. Við getum ekki í öllum tilfellum boðið upp á gistingu feðra, sem er mjög miður, en við erum þakklát okkar skjólstæðingum fyrir góðan skiling og þolinmæði, segir Ingibjörg.