Vilji er til að halda áfram samstarfi þriggja félaga sem starfa á menningarsviðinu á Akureyri, tilraunatímabili um samrekstur lýkur nú um áramótin og vel þykir hafa tekist til með samreksturinn. Þrjú ár verða um áramót liðin frá því rekstur Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Leikfélags Akureyrar og Menningarfélagsins Hofs voru sameinuðu undir merkjum Menningarfélags Akureyrar, MAk, í þeim tilgangi að ná auknum slagkrafti í menningarlíf bæjarins og bæta nýtingu fjármuna.
Þuríður Helga Kristjánsdóttir stendur í brú Menningarfélagsins. Hún segir samreksturinn hafa haft jákvæð áhrif á öll félögin og ríkur vilji sé fyrir hendi innan þeirra allra að halda áfram á sömu braut.
„Félagið stendur traustum fótum og við teljum að á þessum þremur árum höfum við sýnt fram á ótvíræða kosti þess að starfa saman,“ segir hún.
Ánægju með þetta fyrirkomulag megi finna hjá hverju og einu aðildarfélaganna, hjá Akureyrarbæ og kannski ekki hvað síst meðal íbúa á Norðurlandi öllu sem tóku sérlega vel í áskriftarkortasölu yfirstandandi starfsárs, sem hvorki meira né minna fjórfaldaðist frá síðasta ári.
Nánar er rætt við Þuríði í Vikudegi sem kom út í gær.