Það eru mér mikil vonbrigði að ekki tókst að ljúka málinu fyrir jól, segir Kristján L. Möller alþingismaður og formaður atvinnuveganefndar Alþingis en enn hefur óháð úttekt fjármálaráðuneytisins á reiknilíkani vegna Vaðlaheiðaganga ekki litið dagsins ljós. Úttekin er unnin á vegum fjármálaráðuneytis.
Kristján segir að fyrirtækinu IFS-greiningu hafi verið falið að gera úttektina, og hún er víst ekki búin enn, segir hann. Það að enn er verið að vinna við yfirferð á reikninlíkani hafði í för með sér að fjármálaráðherra gat ekki farið með málið fyrir fjármálanefnd. Ég óttast að það verði ekki fyrr en með vorinu, í mars eða apríl sem hægt verði að hefjast handa. Það eru mikil vonbrigði að enn verði tafir á þessu þarfa verkefni, segir Kristján.
Hann segir að ýmis öfl í samfélaginu berjist með oddi og egg gegn gerð Vaðlaheiðaganga, andstaðan sé mikil og þeir sem eru á móti framkvæmdinni hafi fengið aðra sakleysingja eins og hann orðar það, til liðs við sig. Einkennilegast þyki honum að fremst í flokki andstæðinga Vaðlaheiðaganga fari Félag íslenskra bifreiðaeigenda. Það er skrýtið að félagið sé á móti þessu mikla umferðaröryggismáli, segir hann.