Óskar Þór ráðinn verkefnastjóri Landsmót UMFÍ á Akureyri

Óskar Þór Halldórsson hefur verið ráðinn í starf verkefnastjóra Landsmóts UMFÍ á Akureyri næsta sumar og mun hann hefja störf 1. mars nk. Verkefni hans verður að að stýra undirbúningi og framkvæmd Landsmótsins ásamt Ómari Braga Stefánssyni, framkvæmdastjóra mótsins, og landsmótsnefnd, sem í eru fulltrúar UFA, UMSE, UMFÍ og Akureyrarbæjar.  

"Ég hef setið í landsmótsnefnd frá sl. hausti og þannig fengið tækifæri til þess að koma að undirbúningi mótsins. Það verður virkilega gaman að takast á við verkefnastjórn Landsmótsins, enda er umfang þess mikið. Landsmót UMFÍ er jafnan stærsta íþróttahátíð sem efnt er til hér á landi og því er í mörg horn að líta við að púsla þessu öllu saman. Við ætlum okkur að halda hér glæsilegt landsmót og ég sé enga ástæðu til annars en þau áform gangi eftir," segir Óskar og nefnir að keppnisgreinar á mótinu verði um þrjátíu, auk nokkurra kynningargreina og  íþróttagreina fyrir eldri borgara.

"Það er mitt mat að ef einhvern tímann er þörf á því að halda stórt og veglegt landsmót, þá er það nú. Í þessu efnahagsástandi er afar brýnt að efla íþrótta- og æskulýðsstarf og ég finn að fullur vilji er til þess. Ég er þess fullviss að það verður góð mæting á landsmótið hér á Akureyri í sumar og það er verkefni okkar Akureyringa og Eyfirðinga allra að standa vel að mótinu - fjölmenna og taka virkan þátt í því. Það er ein af lykilforsendum þess að vel takist til. Þetta er afmælismót - hér á Akureyri var fyrsta landsmótið haldið fyrir hundrað árum og við minnumst að sjálfsögðu þessara tímamóta á mótinu í sumar. Við búumst við miklum mannfjölda í bæinn - bæði keppendum og gestum og verkefnið er að skapa hér eftirminnilega íþrótta- og mannlífshátíð. Það ætlum við að gera."

Landsmót UMFÍ á Akureyri hefst fimmtudaginn 9. júlí og lýkur sunnudaginn 12. júlí. Formleg mótssetning verður föstudagskvöldið 10. júlí á nýjum íþróttaleikvangi við Hamar. Upplýsinga- og fréttasíða mótsins er á slóðinni http://www.landsmotumfi.is/.

Nýjast