Öryggisvesti fyrir reiðskólabörn

„Ég fullyrði að öryggisvesti af þessu tagi munu í nálægri framtíð verða staðalbúnaður í reiðmennskunni,“ segir Erlingur Guðmundsson formaður Léttis sem um ný öryggisvesti sem Sjóvá hefur gefið reiðskólunum á Akureyri að gjöf.

 Sjálfur kveðst hann hafa keypt slík vesti fyrir nokkrum árum af þýskri konu í verslun í Reykjavík  en þá hafi almennt ekki verið mikill skilningur á mikilvægi þeirra. Nú séu hins vegar sem betur fer breyttir tímar. Öryggisvestin eru vörn sem tryggja að þeir krakkar sem fara í Reiðskóla Léttis og Reiðskólann Kát eru í besta hugsanlega öryggisbúnaði. 
Öryggisvestin verja knapa fyrir slysum og höggum sem geta hlotist þegar t.d. dottið er af baki, eins og rifbeins- og viðbeinsbrotum, ásamt bakmeiðslum.  Öllum börnum og unglingum sem sækja reiðskólana á Akureyri mun framvegis vera gert að nota öryggisvestin. 
Mikil umræða hefur skapast um öryggismál hestamanna undanfarin ár og er það trú hestamanna að mikil aukning verði á notkun öryggisbúnaðar í hestamennsku á næstu árum.  Þessi öryggisvesti eru nýjung hér á landi en mjög góð reynsla er af þeim erlendis.
Vestin eru gefin í tilefni þess að Hestamannafélagið Léttir á Akureyri er 80 ára og af því tilefni var tekin í notkun ný og glæsileg reiðhöll, sem er stærsta reiðhöll landsins.  Gera má því ráð fyrir að þátttakendum á reiðnámskeiðum fyrir norðan muni fjölga mikið á næstunni.

Nýjast