KA lagði Víking Ó. að velli með öruggum 3-0 sigri á Akureyrarvelli í dag er liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu. Fyrr í dag gerðu Leiknir R. og Þór jafntefli í miklum markaleik en lokatölur á Leiknisvelli urðu 4-4. Það var hreint ótrúlegur endasprettur sem tryggði Þór stig í leiknum en öll mörk Þórs komu á tólf mínútna kafla undir lok leiksins. Einar Sigþórsson átti stórleik og skoraði þrennu fyrir Þór í dag og Hreinn Hringsson skoraði eitt mark. Í leik KA og Víkings Ó. voru það heimamenn sem höfðu mikla yfirburði.
Það tók KA- menn aðeins um sex mínútur að skora fyrsta mark leiksins og það gerði Andri Fannar Stefánsson með hörkuskoti fyrir utan teig í stöng og inn. Á 38. mínútu bætti Sandor Fortizs við öðru marki KA. Hann fékk þá boltann fyrir utan teig og lét vaða á markið og boltinn fór upp í samskeytin, algjörlega óverjandi fyrir markvörð gestanna. Staðan 2-0 í hálfleik.
Það var svo snemma í síðari hálfleik að KA gulltryggði sigurinn og það gerði Bjarni Pálmason með marki á 60. mínútu. Lokatölur því öruggur 3-0 sigur KA. Eftir 19. umferðir er KA í 5. sæti deildarinnar með 29 stig en Þór í 7. sæti með 25 stig.