Orrustuþotur sveima yfir Akureyrarflugvelli

Í gær og í dag hafa bandarískar orrustuþotur sveimað yfir Akureyrarflugvelli í svokölluðum aðflugsæfingum. Samkvæmt Varnarmálastofnun eru umræddar æfingar venjubundinn hluti af hinni svökölluðu loftrýmisgæslu Nató. Gjörningurinn er ekki geðslegri fyrir það að hann sé bundinn venju, að mati Samtaka hernaðarandstæðinga á Norðurlandi.  

Samtökin óska þess að hernaðarbandalagið Nató muni ekki venja komur sínar til Akureyrar í framtíðinni. Við óttumst þó að herveldin muni ekki verða við ósk okkar, en það er ljóst að heimsvaldasinnar renna hýru auga til olíulinda og samgönguleiða í Norðurhöfum. Samtökin hafa því ákveðið að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og reisa hernaðarbandalaginu níðstöng til að fyrirbyggja að heimsvaldasinnum verði ágengt í ásælni sinni, segir í fréttatilkynningu. Athöfnin fer fram laugardaginn 22. ágúst á suðurbílastæði Akureyrarflugvallar klukkan 14.30.

Nýjast