Orkusalan kaupir söluhluta Fallorku

Orkusalan hefur samið um kaup á söluhluta Fallorku, dótturfélagi Norðurorku sem er í 98% eigu Akureyrabæjar. Tvö bindandi tilboð bárust í sölusvið Fallorku og var ákveðið að ganga til samninga við Orkusöluna.

Samningur milli Orkusölunnar og Fallorku felur í sér að Orkusalan taki við sölu og þjónustu til viðskiptavina Fallorku. Samhliða því er gerður langtímasamningur um raforkukaup þar sem Fallorka skuldbindur sig til að selja Orkusölunni raforkuframleiðslu sína.

Áformin hafa verið tilkynnt til Samkeppniseftirlits, sem hefur þau til skoðunar.

„Með kaupunum styrkir Orkusalan enn frekar starfsemi sína á Norðurlandi en Orkusalan er með öfluga skrifstofu á Akureyri og er ein af virkjunum fyrirtækisins jafnframt staðsett á svæðinu,“ segir í tilkynningu. Þar starfa tveir af fjórum framkvæmdastjórum Orkusölunnar.

Fallorka hefur undanfarin ár átt undir högg að sækja í harðnandi samkeppni á raforkumarkaði og hefur rekstur sölusviðsins verið óhagkvæmur vegna smæðar.

Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku segir að þessi breyting sé skynsamleg ráðstöfun. „Við teljum að þetta verkefni eigi betur heima hjá aðila sem hefur kjarnastarfsemi í bæði sölu og framleiðslu á raforku.”

Nýjast