Opið hús í Menntaskólanum á Akureyri á miðvikudag

Menntaskólinn á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Menntaskólinn á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Opið hús verður í Menntaskólanum á Akureyri miðvikudaginn 21. mars á milli kl. 16.00 og 17.30. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna skólann, námið og skólalífið fyrir nemendum 10. bekkjar og forráðamönnum þeirra. Dagskrá verður í öllum húsum skólans og er vonast til að gestir fari um allt og kynni sér sem flest. Í Kvosinni, Sal MA á Hólum, verður margvísleg dagskrá, meðal annars myndasýning úr skólalífinu, kynning á námsbrautum og nýjungum í námi og kennslu. Þar verða jafnframt nemendur að störfum og kynna námið og þar verða mörg félgög með kynningar á starfi sínu og leyfa gestum jafnvel að taka þátt í þrautum.

Á Möðruvöllum, í raungreinahúsi MA, verða sérstaklega kynntar raungreinar og þar verður líka kynning á stjörnufræði og stjórnukíki skólans, og líka hægt að spreyta sig á raungreinaþrautum. Í Gamla skóla verður tónlistardagskrá á Gamla sal og þar verður líka hægt að skoða margt gamalt og skemmtilegt í eigu skólans, meðal annars uglusafnið, sem er í Meistarastofu. Þá verður gestum einnig boðið að kynna sér og skoða Heimavist MA og VMA. Veitingar verða í boði á Hólum.

Fjölmargir 10. bekkingar úr skólum á Akureyri og annars staðar á Norðurlandi hafa komið í kynnisferðir í skólann en nú gefst tækifæri til að skoða hann á ný og á annan og fjölbreyttari hátt en áður, meðal annars hitta nemendur við leiki og störf. Skólinn býður 10. bekkinga og forráðamenn þeirra velkomna á Opið hús á miðvikudag, segir í fréttatilkynningu.

 

Nýjast