Lögreglustjórinn á Akureyri hefur gefið út ákæru á hendur bílstjóra fólksflutningabifreiðar fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot. Jafnframt er ökumaður dráttarvélar með aftanívagn, ákærður fyrir umferðarlagabrot, m.a. fyrir að aka of hægt, en dráttarvélin var auk þess óskráð. Ökumaður dráttarvélarinnar slasaðist nokkuð þegar vélin og vagninn köstuðuðst út af veginum við býlið Háls í Þingeyjarsveit, eftir árekstur við fólksflutningabílinn í ágúst á síðasta ári. Ökumaður fólksflutningabílsins hóf akstur framúr dráttarvélinni, sem ekið var sömu leið, án þess að gæta nægilega að því hvort annað ökutæki hefði byrja akstur framúr honum, með þeim afleiðingum að bifreiðin sem kom á eftir, rakst utan í rútuna, eins og segir í ákæru. Ökumaður fólkflutningabílsins beygði þá snögglega yfir á vinstri helming götunnar og ók á eftirvagn dráttarvélarinnar, þannig að vagninn og dráttarvélin kastaðist út af veginum. Ökumaður dráttarvélarinnar höfuðkúpubrotnaði, hlaut smávægilegar innankúpublæðingar og loft innan höfuðkúpu, tvö rifbein brotnuðu, auk þess sem hann fékk stórt blæðandi sár á höfuð.
Ökumaður dráttarvélarinnar er ákærður fyrir að hafa ekið óskráðri og ótryggðri dráttarvél og án nokkurra ökuljósa á eftirvagninum frá í Eyjafjarðarsveit áleiðis í Þingeyjarsveit, uns ofangreint slys varð. Meginhluta af leiðinni ók hann eftir þjóðvegi 1 á um 20 kílómetra hraða á klukkustund, en hámarkshraði á þjóðvegi 1 er 90 kílómetrar og tafið með því umferð um veginn að óþörfu og ekki fylgst með og vikið nægilega fyrir umferð sem kom á eftir hans ökutæki.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og að bílstjóri fólksflutningabílsins verði sviptur ökuréttindum.