Oddur Helgi Halldórsson formaður bæjarráðs Akureyrar segir að venjan sé sú að bæjarfulltrúar víki af fundi, ef vafi leiki á um hæfi þeirra. Þessa venju hafi Ólafur Jónsson ákveðið að virða ekki. Oddur segir að það hafi strax komið upp vafi á hæfi Ólafs vegna þess að hann á lóð að Dalsbrautinni og því í raun aðili málsins. Þegar konan hans svo sendir formlega inn athugasemdir við skipulagið, þá er hún orðin aðili málsins, án nokkurs vafa, segir Oddur.
Hann segir að þá komi til 22. greinar í samþykktum Akureyrarbæjar og 19. grein sveitarstjórnarlaga. Það hafi verið álit bæjarlögmanns og lögmanns Sambands íslenskra sveitarfélaga að Ólafur hafi verið vanhæfur til að fjalla um málið, þar sem kona hans hafi sent inn athugasemdir við skipulagið.
Oddur segir að Reykjavíkurborg hafi fylgt þeirri venju að borgarfulltrúar víki sæti ef fjallað er um skipulag í þeirra hverfi. Það var á engan hátt vilji okkar að Ólafur tæki ekki þátt í afgreiðslu málsins og skipti ekki máli fyrir framgang málsins, sem var samþykkt með 9 atkvæðum en hefði verið afgreitt með 8 atkvæðum ef Ólafur hefði tekið þátt. Hins vegar ber okkur skylda til að hafa stjórnsýsluna sem réttasta og það vorum við að gera, sagði Oddur.
Eins og fram kemur hér að neðan var Ólafur bæjarfulltrúi Sjálfstæðiflokksins úrskurðaður vanhæfur til að fjalla um deiliskipulag Dalsbrautar á fundi bæjarstjórnar í gær, með átta atkvæðum gegn tveimur. Njáll Trausti Friðbertsson varamaður Ólafs tók sæti hans á meðan deiliskipulagstillagan var afgreidd en að því loknu tók Ólafur aftur sæti sitt í bæjarstjórn.