Of litlu fé ætlað til uppbyggingar héraðsvega

Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar nýlega var fjallað um frumvarp til laga um fjögurra ára samgönguáætlun 2011-2014 og jafnframt um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022. Sveitarstjórn telur að allt of litlu fé sé ætlað til uppbyggingar héraðsvega á samgönguáætlunum. Héraðsvegir eru um 24% af vegakerfi landsins en til þeirra er einungis áætlað um 1,5% af stofnkostnaði við vegagerð ef jarðgöng eru undanskilin. Stofn- og tengivegir eru um 61% af vegakerfi landsins og til þeirra er áætlað að verja um 92% af stofnkostnaði vega ef jarðgöng eru undanskilin.
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar leggur til að framlög til héraðsvega verði tvöfölduð frá því sem nú er ætlað og að upphæðin verði tekin af stofnkostnaði stofn- og tengivega. Þessi breyting mun einungis lækka framlög til stofn- og tengivega um u.þ.b. 2%, segir í bókun sveitarstjórnar.

Nýjast