Oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri hættir

Sveitarstjórnarkosningar fara fram í maí á næsta ári.
Sveitarstjórnarkosningar fara fram í maí á næsta ári.

Sigríður Huld Jónsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar ætlar ekki í framboð í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor. Sigríður Huld tók við sem oddviti eftir að Logi Már Einarsson fór á þing. „Aðstæður mínar breyttust úr því að vera aðstoðarskólameistari og í 2. sæti yfir í það að verða skólameistari og oddviti,“ segir Sigríður Huld um ákvörðunina. 

„Ég er í tveimur mjög skemmtilegum störfum og einfaldlega of mikið að gera. Eftir mikla umhugsun ákvað ég að láta bæjarmálin víkja,“ segir Sigríður. Hún segir bæjarfulltrúastarfið skemmtilegt, krefjandi og lærdómsríkt en oddviti þurfi að hafa meiri tíma. „Krafan á tíma bæjarfulltrúa er orðin mjög mikil og sérstaklega þeirra sem eru í meirihluta og eru oddvitar, enda mjög mikilvægt fyrir sveitarfélagið að bæjarfulltrúar séu að taka þátt í umræðum á mörgum stöðum t.d. tengt atvinnulífi, samstarfi innan sveitarstjórnarstigsins, sambandi við ýmis mál sem unnin eru með ríkinu og síð­ ast en ekki síst að geta gefið sér meiri tíma í innri mál sveitarfélagsins t.d. með því að kynnast betur þeim stóra vinnustað sem Akureyrarbær er,“ segir Sigríður Huld.

Sigríður Huld Jónsdóttir

Þrír undir feldi

Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknarflokksins hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann fari fram. „Hugurinn þessa dagana er bundinn við margvísleg og krefjandi störf sem formaður bæjarráðs og ég hef ekki tekið endanlega ákvörðun um framhaldið. Ég mun hins vegar fljótlega gefa út hver ákvörðun mín verður,“ segir Guðmundur í skriflegu svari við fyrirspurn blaðsins. Sömuleiðis hefur Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar og oddviti L-listans ekki tekið ákvörðun um hvort hann bjóði sig fram. Þá er Preben Jón Pétursson oddviti Bjartrar framtíð­ ar einnig undir felldi. „En þó eru meiri líkur en minni á að ég gefi kost á mér,“ sagði Preben í samtali við blaðið.

Sóley og Gunnar áfram

Sóley Björk Stefánsdóttir oddviti Vg ætlar að gefa kost á sér á í fyrsta sæti listans og sömuleiðis mun Gunnar Gíslason oddviti Sjálfstæðisflokksins gera slíkt hið sama. Líkt og kom fram í viðtali við Gunnar í Vikudegi í vor vill hann pólitískan bæjarstjóra og stefnir á bæjarstjórastólinn í vor. -þev

Nýjast