Framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) hefur sent inn umsókn um vínveitingaleyfi fyrir öldrunarheimilin. Um nokkurt skeið hefur staðið til að sækja um slíkt leyfi enda hafa kráarkvöld verið haldin að jafnaði einu sinni í mánuði sl. 10 ár auk hátíðarviðburða og þorrablóta. Þá hafa önnur hjúkrunarheimili verið að sækja um slík leyfi og aðlaga starfsemi sína m.a. til að ná hagræði í innkaupum og afgreiðslu.
Halldór Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÖA, segir við fyrirspurn blaðsins að tilefnið vegna umsóknar um vínveitingaleyfi komi úr ýmsum áttum, enda umræðan verið í gangi af og til síðastliðinn áratug.
„Fyrir það fyrsta viljum við einfalda innkaup, bæta þjónustuna og minnka fyrirhöfnina þegar kemur að kráarkvöldum og öðrum viðburðum sem fram fara hér innanhúss,“ segir Halldór. „Annað er að vissulega hafa íbúar, aðstandendur og starfsfólk opnað á umræðu um af hverju ÖA sé ekki með vínveitingaleyfi. Slíkt væri í takt við þróunina og menningu í samfélaginu og ætti samleið með áherslum á sjálfræði og lífsgæði íbúa, að þeir geti keypt sér öl eða vín með mat ef svo stendur á. Í þriðja lagi má horfa til þess að önnur öldrunarheimili hafa stigið þetta skref, eins og t.d. Hrafnista og vitað að fleiri eru að undirbúa leyfisumsóknir.“
Halldór bendir einnig á að mikilvægur þáttur í starfsemi ÖA sé að stuðla að ánægjulegum samverustundum, hópastarfi og tilefnum til að ættingjar og aðrir komi og eigi þar góða samveru.
„Vínveitingar geta verið hluti af því og eru það reyndar eins og söngur og sherry-stundir eftir hádegi á föstudögum. Kannski eigum við eftir að prófa „gleðistundir“ eða „happý-hour“, þar sem íbúar eigi val um veitingar. Við sjáum fyrir okkur að vínveitingaleyfi verði til þess að auðvelda ýmislegt af því sem við erum að gera og sem okkur langar að gera um leið og vínveitingar eru hluti þess sem gerist í samfélaginu utan ÖA verð líka innan heimilanna,“ segir Halldór.