Nýtt tölvusneiðmyndatæki tekið formlega í notkun á FSA

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðsráðherra heimsótti Sjúkrahúsið á Akureri í dag og við það tækifæri tók hann formlega í notkun nýtt og fullkomið tölvusneiðmyndatæki. Tækið er af nýjustu gerð svokallaðra fjölsneiðatækja og tekur 128 sneiðar í hverjum snúningi. Það leysir af hólmi eldra tæki sem tók eina sneið í hverjum snúningi.  

Tækið er miklu hraðvirkara en eldra tæki og býður upp á nýjar rannsóknir. Ber þar helst að nefna kransæðarannsóknir sem er nýlunda á FSA. Þegar er búið að gera nokkrar slíkar rannsóknir og lofar árangurinn góðu. Þessi rannsókn kemur þó ekki að fullu í stað kransæðaþræðingar, því ekki er unnt að gera inngrip ef þörf er á vegna kransæðaþrengsla. Tölvusneiðmyndatækið er með þeim fullkomnustu á Íslandi í dag og gjörbreytir möguleikunum til sneiðmyndarannsókna frá því sem áður var.

Einnig hefur brjóstamyndatökubúnaður verið endurnýjaður og er nú alstafrænn. Hann er beintengdur við höfuðstöðvar Krabbameinsfélags Íslands. Þetta auðveldar allt skipulag og eykur öryggi við úrlestur mynda. Krabbameinsfélagið leggur þennan tækjabúnað til. Þá hefur FSA fengið að gjöf nýjan og fullkominn beinþéttnimæli.

Nýjast