Nýr umdæmisstjóri VÍS á Norðurlandi

Magnús Jónsson.
Magnús Jónsson.

Magnús Jónsson hefur verið ráðinn umdæmisstjóri VÍS á Norðurlandi og tekur til starfa á morgun. Magnús tekur við stöðunni af Helga Jóhannessyni sem hefur verið ráðinn forstjóri Norðurorku. Undanfarin 8 ár hefur Magnús starfað hjá Landsbankanum, bæði sem útibússtjóri á Húsavík og í Árbæ og nú síðast sem fyrirtækjasérfræðingur á Akureyri. „Þetta er nýtt og spennandi verkefni á slóðum sem ég þekki vel til á alveg frá austri til vesturs. Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við þetta og láta gott af mér leiða á vegum VÍS,“ segir Magnús.

„Við erum mjög ánægð með að fá Magnús til liðs við okkur. Hann hefur mikla þekkingu á atvinnulífinu á svæðinu og góð tengsl við fólk um allt Norðurland úr sínum fyrri störfum,“ segir Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Sölu- og þjónustusviðs VÍS. „Það kemur til með að nýtast vel við að rækja okkar hlutverk sem er að veita framúrskarandi þjónustu og vernd með umhyggju, fagmennsku og árangur að leiðarljósi.“

Magnús er 36 ára viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, í sambúð með Sigurrós Jakobsdóttir starfsmanni Þekkingar á Akureyri og eiga þau tvo unga syni. Umdæmi VÍS á Norðurlandi nær frá Vestur-Húnavatnssýslu til Norður-Þingeyjarsýslu með þjónustu á Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri, Húsavík og Þórshöfn og á þriðja tug starfsmanna, segir í fréttatilkynningu.

 

Nýjast