Nýlátinn Mývetningur heimtaði sinn hamborgara og engar refjar!

Friðrik Dagur Arnarson til hægri ásamt félaga sínum og sveitunga, Agli Freysteinssyni. Mynd: fb FDA.
Friðrik Dagur Arnarson til hægri ásamt félaga sínum og sveitunga, Agli Freysteinssyni. Mynd: fb FDA.

Afgreiðslumeyjum á veitingastaðnum Bakkanum á Húsavík  brá illilega í brún þegar þar birtist á sunnudagskvöldi gamall maður, skeggjaður, skuggalegur, hokinn, með skítugan hattkúf á höfði og allur hinn undarlegasti í háttum. Þessi persóna vafraði um staðinn muldrandi í barminn og rak af og til upp gól. En snaraðist loks að afgreiðsluborði, kvaðst vera nýdáinn og því eðlilega banhungraður og heimtaði hamborgara með hraði.

Ekki létti Bakkadömum við þetta og urðu hálf skelkaðar. En þá gaf hinn grunsamlegi gestur til kynna hvernig í pottinn var búið. Hér var á ferð ungur prestssonur úr Mývatnssveit, Friðrik Dagur Arnarson, leikari í sýningu Ungmennafélags Mývetninga sem var í gangi í næsta húsi við Bakkann, þ.e. Samkomuhúsinu. Friðrik lék þar gamlan glæpamann sem varð bráðkvaddur í fyrsta þætti og hans þátttöku því snemma lokið.

Og hér var Friðrik Dagur því mættur og enn í karakter, til að hrella meyjar og seðja hungur hins nýdauða Mývetnings. JS

Nýjast