Nýjum sorpílátum dreift í Lundahverfi í mánuðinum

Stór skref hafa verið stigin í sorpmálum á Akureyri á síðustu árum. Má þar helst nefna að reist var jarðgerðarstöð fyrir lífrænan úrgang sem til fellur á Eyjafjarðarsvæðinu. Einnig voru möguleikar á förgun úrgangs svæðisins vandlega skoðaðir og lauk þeirri skoðun með að gerður var samningur við Norðurá bs um urðun úrgangs við Sölvabakka í Húnavatnssýslum.  

Fyrr á þessu ári voru opnuð tilboð í sorphirðu fyrir Akureyrarkaupstað, en þar var gert ráð fyrir að fara í meiri flokkun úrgangs og skipta úr plastpokum yfir í hefðbundin plastílát fyrir heimilissorp. Mögulegar leiðir voru tvær, þ.e. leið A og leið B. Leið A gerði ráð fyrir að heimilisúrgangur verði flokkaður í 3 ílát,  þ.e. óflokkaðan hluta, sem fer til urðunar, lífrænan eldhúshluta, sem fer í jarðgerð og endurvinnanlegan hluta, sem fer í ákveðinn endurvinnsluferil og skapar með því ný verðmæti.  Í leið B er hinsvegar gert ráð fyrir 2 ílátum við hvert hús, þ.e. fyrir óflokkaða hlutann og lífræna eldhúshlutann, en íbúarnir fara síðan með endurvinnanlega hlutann á grenndarstöðvar í sínum hverfum, eða á gámavöllinn við Réttarhvamm. Áætlað er að þessar grenndarstöðvar verði 12 og hámarksfjarlægð frá einstaka heimilum um 500 metrar. Báðar aðferðirnar hafa sína kosti og galla en báðar eru þær hugsaðar með það markmið að minnka magn úrgangs til urðunar.

Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar hefur ákveðið að fara leið B við sorphirðu í sveitarfélaginu og verður byrjað á Lundarhverfi í þessum mánuði með því að dreifa ílátum og staðsetja þau. Haldinn verður kynningarfundur í Lundarskóla fyrir íbúana um hvernig staðið skuli að flokkun sorps og þeir verða einnig heimsóttir af starfsmönnum Gámaþjónustu Norðurlands. Síðan er reiknað með að byrja á Síðuhverfi um miðjan október og í framhaldinu, Giljahverfi, Brekkan/Miðbær, Brekkan/Innbær, Holt- og Hlíðar, Gerðahverfi, Oddeyrin, og síðast Naustahverfið um miðjan desember ef allt gengur eftir. Eiginleg sorphirða eftir nýja kerfinu byrjar svo í Lundahverfi um miðjan október og því verða tvö kerfi í gangi í hluta bæjarins á þessum tveimur mánuðum. Einnig verða tveir sorphirðubílar í gangi þar til í byrjun desember, en þá mun verða tekinn í notkun fullkominn tveggja hólfa sorphirðubíll, sá eini sinnar tegundar á Íslandi.

Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um umhverfi sitt og skilji kosti þess að flokka úrgang. Það er því afar áríðandi að íbúar verði jákvæðir gagnvart þeirri lausn sem farið verður í því árangurinn ræðst fyrst og fremst af viðhorfum og vinnu íbúanna á heimilunum. Þar gerast hlutirnir. Öflug kynning, fræðsla og eftirfylgni er einn mikilvægasti þátturinn í þessari breytingu sem vonandi færir okkur fram á þann stað sem við getum verið stolt af til framtíðar, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast