„Þörf fyrir stækkun svæðisins kemur bæði til vegna þess að ferðafólki fjölgar, en ekki síður hafa ferðavenjur tekið breytingum. Gestir koma yfir lengri tíma en áður var, lengra fram á haustið og mæta fyrr að vorinu. Það eykur álagið á tjaldflatir, m.a. vegna bleytu á þessum árstímum og því þarf að dreifa álaginu,“ segir Tryggvi Marinósson framkvæmdastjóri Tjaldsvæðanna á Akureyri, að Hömrum og við Þórunnarstræti. Mikil fjölgun húsbíla og stærri vagna hefur sömu áhrif tjaldflatir.
Til stendur að stækka tjaldsvæðið að Hömrum, bæta við tveimur stórum tjaldflötum og er það í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Aðsókn að tjaldsvæðunum hefur verið góð það sem af er sumri, í júní voru þær tæplega 9 þúsund talsins sem er aukning um ríflega 3 þúsund gistinætur samanborið við júní á liðnu ári.
Nú þarf meira pláss
„Hjólhýsavæðing landans hefur í för með sér að hver og einn tjaldgestur þarf talsvert meira pláss en áður var. Það hefur afgerandi áhrif á tjaldsvæðið við Þórunnarstræti sem er mjög lítið og þegar ferðavagnar verða æ stærri fækkar þeim sem geta gist á því svæði. Það hentar líka mjög illa fyrir þessi stóru hús vegna halla,“ segir Tryggvi. Gistinóttum á svæðinu við Þórunnarstræti hefur um árin fækkað, sem bæði má rekja til stærri vagna en ekki síður segir Tryggvi að aðstaða þar standist engan vegin nútímakröfur og þarfnist því gagngerra endurbóta. „Staðan þessa svæðis til framtíðar litið er óljós, það liggur þó fyrir að taka verður hið fyrsta ákvörðun um hvort ráðast eigi þar í uppbyggingu eða lokun.“