Auk þess að keppa um titilinn Mottan 2012 og hljóta flotta vinninga í lok Mottumars - fjáröflunar- og árvekniherferðar Krabbameinsfélagsins - eiga keppendur í ár einnig möguleika á að vinna ýmsa glæsilega aukavinninga. Þannig fara allir keppendur í einstaklingsflokki sem safnað hafa meira en 6.000 krónum í sérstakan pott á miðvikudaginn, sem og liðin sem safnað hafa 12.000 krónum og verða vinningshafa dregnir út í beinni útsendingu í þættinum Virkum morgnum á Rás 2 miðvikudaginn 7. mars næstkomandi. Verðlaunin í einstaklingskeppninni eru flugferð fyrir tvo með WOW Air og sigurvegarinn í liðakeppninni fær glæsilega gjafakörfu frá Íslenskum grænmetisbændum. Dregið verður þrisvar sinnum í mars og fara keppendur í pottinn sem hafa náð tiltekinni upphæð á ákveðnum tímapunktum.
Nú þegar er ljóst að margir verða í pottinum hjá útvarpsfólkinu góðkunna; þeim Gunnu Dís og Andra Frey á miðvikudaginn kemur því um hádegi í dag höfðu vel á annað hundrað einstaklingar náð að safna 6.000 krónum eða meira í áheitum og á fjórða tug liða hafði safnað 12.000 krónum eða meira.
Hátt í þrjár milljónir króna höfðu safnast í Mottumars um hádegisbilið í dag en alls höfðu yfir eitt þúsund keppendur þá þegar skráð sig til leiks í einstaklingskeppninni og vel á annað hundrað liða í liðakeppninni. Enn er þó nægur tími til að vera með því söfnuninni lýkur ekki fyrr en 29. mars og er markmiðið að þá hafi safnast alls 35 milljónir króna til stuðnings baráttunni geng krabbameinum í körlum. Krabbameinsfélagið hvetur landsmenn alla til að taka þátt í Mottumars, hvort sem er með því að skrá sig til leiks á www.mottumars.is eða með því að heita á keppendur.