Ný samgöngumiðstöð á að leysa öryggisleysi strætófarþega

Farþegar landsbyggðarstrætó þurfa að stíga út á götu í veg fyrir bílaumferð til að ná í farangur. Að…
Farþegar landsbyggðarstrætó þurfa að stíga út á götu í veg fyrir bílaumferð til að ná í farangur. Aðstaðan mun færast í nýja samgöngumiðstöð sem til stendur að reisa. Mynd/Þröstur Ernir.

Öryggi farþega sem ferðast með landsbyggðarstrætó til og frá Akureyri verður ekki tryggt fyrr en ný samgöngumiðstöð rís. Í skoðun er hvar best sé að staðsetja slíka mið­stöð en heppileg staðsetning hefur ekki fundist enn.

Skipulagsráð Akureyrar hefur vísað erindi sem barst í síðustu viku, um aðstöðuleysi fyrir farþega strætó við Hof, til umhverfis- og mannvirkjaráðs. Vikudagur fjallaði um strætóstoppistöðina við Menningarhúsið Hof fyrir þremur árum en hún þykir hættuleg fyrir farþega sökum þess að hlerar farangursrýmis opnast í báðar áttir. Þannig þurfa farþegar oft að ganga út á götu til að sækja farangur sinn.

Ingibjörg Isaksen, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, segir spurð um núverandi aðstöðu við strætóstoppistöðuna að hún sé óheppileg. „Þetta er alveg bagalegt og alls ekki gott. Þess vegna höfum við verið að skoða þetta mál. Við höfum hugsað okkur að ný samgöngumiðstöð leysi þennan vanda en það hefur tekið langan tíma og er enn í vinnslu. Við erum búin að setja fjármagn varðandi nýja samgöngumiðstöð inn á fjárhagsáætlun þannig að við ætlum í þetta verkefni,“ segir Ingibjörg.

Vandræði með staðsetningu

Upphaflega var gert var ráð fyrir því að ný samgöngumiðstöð yrði tekin í notkun árið 2017 en það sem tefur verkefnið er að ekki finnst heppileg staðsetning.

„Vandræðin hafa verið að finna staðsetningu og við erum í þarfagreiningu eins og er um hversu stórt svæði og stórt hús við þurfum og hverjir ætla
að vera með í þessu og svo framvegis. Eins og staðan er núna eru það landsbyggðarstrætóinn og innanbæjarstrætó sem þar myndu hafa aðstöðu. Staðir eins og svæðið við Nætursöluna eða við Ráðhúsið hafa verið nefndir en ekkert er fast í stöðunni. Vandinn er sá að það þarf svo stórt malbikað svæði í kring,“ segir Ingibjörg.

Hún segist reikna með að niðurstaða þarfagreiningar á samgöngumiðstöð liggi fyrir í vor.

Nýjast