Þaðan fór hann með fjölskyldu sinni til Kanada árið 1911, og náði miklum frama á meðal Vestur-Íslendinga og annarra sem heyrðu verk hans og nutu þeirra. Árið 1931 flutti Björgvin heim til Íslands og settist að sem tónlistarkennari og söngstjóri á Akureyri, stofnaði kór, Kantötukór Akureyrar, sem gat sér gott orð hér á landi og einnig erlendis, og gerðist auk þessa afkastamikill rithöfundur. Björgvin lést á Akureyri árið 1961. Bókin Ferill til frama er 160 bls. prýdd fjölda mynda og búin viðaukum, svo sem nafnaskrá og ítarlegum útdrætti á ensku. Ásprent prentaði bókina en Bókaútgáfan Salka sér um dreifingu hennar. Menningar- og viðurkenningarsjóður KEA styrkti útgáfu þessarar bókar. Ferill Björgvins Guðmundssonar hlýtur að vera áhugaefni hverjum þeim, sem ann íslenskum tónfræðum og tónmenningu. Hann er vafalítið mesta kórverkatónskáld, sem Ísland hefur alið. Eftir hann liggja fimm viðamikil kórverk, eða söngdrápur, auk mikils fjölda (yfir 600) annarra verka stórra og smárra bæði fyrir raddir og hljóðfæri.