Nú er besti tíminn til að ráðast gegn lúpínunni

Unnið er að því að hefta útbreiðslu lúpínu í landi Húsavíkur
Unnið er að því að hefta útbreiðslu lúpínu í landi Húsavíkur

Eins og áður hefur komið fram í Skarpi er unnið að aðgerðaráætlun um hvar nauðsynlegt sé að hefta útbreiðslu lúpínu í landi Húsavíkur og hvaða aðgerðir komi til greina. Elke Wald stýrir verkefninu en nú standa yfir mælingar á lúpínubreiðunum innan bæjarlandsins og verið er að meta þörfina til að grípa til aðgerða.

„Helstu aðgerðir sem koma til greina og eru árangursríkastar eru beit og sláttur. Reynsla hér á landi og erlendis hafa einnig sýnt að miklu máli skipti, á hvaða árstíma gripið er til aðgerða til að ná hámarks áhrifum. Samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands er besti tíma til að slá lúpínu á  3-4 vikna tímabili í kringum Jónsmessu en það fer svolítið eftir veðurfari. Þar sem við höfum verið að upplifa sólríkt og hlýtt vor Norðaustanlands er lúpínan frekar snemma á ferðinni í ár og blómstrar nú þegar á fullum krafti. Ég vil því hvetja bæjarbúa til að hefja slátt því núna er besti tíma ársins til að slá lúpínuna og koma í veg fyrir frekari fræmyndun. Langbest er að slá hana eins lágt yfir botninn og hægt er,“ sagði Elke Wald verkefnastjóri í samtali við Skarp.

Frekari upplýsingar um verkefnið og aðgerðir verða veittar á hinum fyrirhugaða „Lúpínudegi“ sem áætlað er að fari fram við Botnsvatni  fyrsta laugardag í júlí, þar munu Jan Klitgaard og Elke Wald veita svör og leiðbeiningar til áhugasamra bæjarbúa en atburðurinn verður auglýstur þegar nær dregur.

Nýjast