Þema ráðstefnunnar er ný sjónarhorn á geðheilbrigðisþjónustu og bestu leiðirnar sem þekktar eru. Geðhjálp og
systrasamtök á Norðurlöndum hafa valið þau sveitarfélög sem skara fram úr í þjónustu við geðsjúka og hefur
Akureyri orðið fyrir valinu á Íslandi.
Föstudagsmorgun 8. maí verða fyrirmyndarsveitarfélögin á Norðurlöndum kynnt af fulltrúum frá hverju sveitarfélagi fyrir sig og
fulltrúum notendasamtakanna og rýnt í það hvað sveitarfélög og meðferðaraðilar geti lært hverjir af öðrum. Kynningin
fer fram í félagsheimili Akureyrarkirkju klukkan 10:30. Meðal þeirra sveitarfélaga sem einnig hafa verið valin fyrirmyndarsveitarfélög eru
Árósar í Danmörku.
Á ráðstefnunni verður áhersla lögð á forvarnarverkefni varðandi börn og unglinga, fjölskyldustuðning og meðferðarleiðir.
Kynntar verða nýjar rannsóknir og forvarnarverkefni gegn sjálfsvígum og fjallað um kosti og galla afstofnanavæðingar og reynslu Ítala af henni.
Ráðstefnan mun einkum snúast um það sem virkar í stað þess að horfa á vandamálin.
Um fimmtíu þátttakendur koma erlendis frá og fimmtíu frá Íslandi.
Meðal fyrirlesara eru ýmsir helstu sérfræðingar Norðurlanda á geðheilbrigðissviði s.s. Tor Ekeland sem hefur rannsakað
afstofnanavæðingu, Kristian Wahlbeck sérfræðingur í stefnumótun geðheilbrigðismála í Finnlandi og á vettvangi ESB, Alain Topor
yfirmaður rannsóknarmiðstöðvar í S-Stokkhólmi sem rannsakað hefur aðferðarfræði og nýja nálgun í meðferð og
Roberto Mezzina sem leitt hefur uppstokkun geðheilbrigðiskerfisins í Trieste á Ítalíu.