Það var Tómas Már Sigurðsson forstjóri Alcoa á Íslandi sem afhenti Þorsteini Gunnarssyni rektor HA styrkinn vegna Norðursprota. Styrkur samfélagssjóðsins svarar til rúmlega 6,7 milljóna króna, miðað við gengi dagsins í dag. Verkefni Norðursprotar snýr að gerð viðskiptaáætlana og verður styrkurinn úr Samfélagssjóði Alcoa notaður til að standa undir kostnaði við gerð þeirra. Styrkurinn var afhentur í húsnæði rafverktafyrirtækisins RAF á Akureyri, sem hóf göngu sína sem sprotafyrirtæki og hefur vaxið og dafnað síðan, m.a. undir handleiðslu Impru og þar starfa nú ellefu manns. Impra Nýsköpunarmiðstöð mun annast framkvæmd verkefnisins í samstarfi við HA og á næstunni verður auglýst eftir umsóknum frá einstaklingum á Norðausturlandi. Er gert ráð fyrir að unnt verði að styrkja á bilinu 12-15 umsækjendur til gerðar viðskiptaáætlunar fyrir nýsköpunarhugmynd þeirra. Styrkirnir nema allt að 400 þúsund krónum til hvers og eins. Ekkert verður því til fyrirstöðu í framhaldinu að unnið verði að framgangi sjálfra viðskiptahugmyndanna í samstarfi við fyrirtæki á Norðausturlandi sem hafa áhuga á að hrinda þeim í framkvæmd í samstarfi við viðkomandi aðila.