Norðursprotar verða til á Norðausturlandi

Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum, veitti í dag Háskólanum á Akureyri 52.500 dollara styrk, til að hrinda úr vör nýsköpunarverkefni sem hefur hlotið heitið Norðursprotar. HA og Impra Nýsköpunarmiðstöð efndu síðla vetrar til samstarfs um þetta verkefni, sem er ætlað að styðja nýsköpunarhugmyndir einstaklinga í atvinnuleit á Norðausturlandi og geta leitt til frekari atvinnutækifæra í landshlutanum.  

Það var Tómas Már Sigurðsson forstjóri Alcoa á Íslandi sem afhenti Þorsteini Gunnarssyni rektor HA styrkinn vegna Norðursprota. Styrkur samfélagssjóðsins svarar til rúmlega 6,7 milljóna króna, miðað við gengi dagsins í dag. Verkefni Norðursprotar snýr að gerð  viðskiptaáætlana og verður styrkurinn úr Samfélagssjóði Alcoa notaður til að standa undir kostnaði við gerð þeirra. Styrkurinn var afhentur í húsnæði rafverktafyrirtækisins RAF á Akureyri, sem hóf göngu sína sem sprotafyrirtæki og hefur vaxið og dafnað síðan, m.a. undir handleiðslu Impru og þar starfa nú ellefu manns. Impra Nýsköpunarmiðstöð mun annast framkvæmd verkefnisins í samstarfi við HA og á næstunni verður auglýst eftir umsóknum frá einstaklingum á Norðausturlandi. Er gert ráð fyrir  að unnt verði að styrkja á bilinu 12-15 umsækjendur til gerðar viðskiptaáætlunar fyrir nýsköpunarhugmynd þeirra. Styrkirnir nema allt að 400 þúsund krónum til hvers og eins. Ekkert verður því til fyrirstöðu í framhaldinu að unnið verði að framgangi sjálfra viðskiptahugmyndanna í samstarfi við fyrirtæki á Norðausturlandi sem hafa áhuga á að hrinda þeim í framkvæmd í samstarfi við viðkomandi aðila.

Nýjast