Norðurport, norðlenskt Kolaport, tekur til starfa á Akureyri

Norðurport, hið norðlenska Kolaport, tekur til starfa í stóru og rúmgóðu húsnæði að Dalsbraut 1 á Akureyri nk. laugardag, þar sem verslunin Húsgögnin heim var áður til húsa. Að þessu verkefni stendur Margrét Traustadóttir en hún varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að vera sagt upp störfum hjá Landsbankanum á Akureyri í kjölfar bankakreppurnnar í október en hún hafði starfað hjá bankanum í 27 ár.  

"Það má segja að ég hafi verið búin að vera heima hjá mér í eymd og volæði í vikutíma eftir uppsögnina í bankanum, þegar þessi hugmynd kom upp. Ég var að fara hitta sálfræðinginn minn, sem ég leitaði til eftir atvinnumissinn og var keyra niður Borgarbrautina í fallegu veðri, þegar ég fór að velta þeim möguleika fyrir mér að setja upp svona markað. Það er því skemmtileg tilviljun að ég skildi fá inni í þessu húsi, sem er í eigu Akureyrarbæjar. Sálfræðingurinn hvatti mig til dáða og ég fór því að vinna að hugmyndinni. Ég lagði mikla vinnu í undirbúning, gerði rekstraráætlun og setti fram markmið, sem ég svo fór með á fund bæjarstjóra, sem tók mér mjög vel. Niðurstaðan varð sú að bærinn leigir mér húsnæðið alla vega út þennan mánuð en á þessari stundu liggur ekki fyrir hvort ég fæ að vera þar lengur. Ef ekki, leita ég að öðru húsnæði til að halda áfram með starfsemina eftir áramót," sagði Margrét, sem hefur m.a. sótt um styrk til verkefnisins hjá Impru.

Hún sagði að fjölmargir aðilar hefðu tekið á leigu borð eða bása í húsnæðinu og hún vonast til að fá sem flesta þarna inn. Margrét hefur fengið fyrirspurnir víða af landinu, m.a. úr Reykjavík, Skagafirði og Þingeyjarsýlsum. "Ég held að þetta sé mjög góður tími til að setja upp svona markað og aðstaðan í þessu húsnæði er mjög góð, bæði fyrir seljendur og gesti. Það eru þó ekki margir með eitthvað matarkyns til sölu enn sem komið en þeim mun meira af alls kyns handverki, auk þess sem fólk er að selja úr geymslunum sínum."

Í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit hefur verið starfræktur markaður en Margrét sagði að þeir aðilar sem þar hafa verið ætli flestir að koma til sín um helgina og að það sé góður hópur. Margrét er með reksturinn á sinni kennitölu til að byrja með en stefnir að því að stofna einkahlutafélag á næsta ári. "Ég er því líka búin að læra heilmikið um hluti sem ég vissi ekkert um áður."

Vaknaði aftur til meðvitundar

Margrét var yfir gjaldkeradeildinni hjá Landsbankanum á Akureyri og hún sagði að það hafi komið sér á óvart að vera sagt upp störfum. "Ég hef verið á vinnumarkaði frá árinu 1971, þetta hefur aldrei hent mig fyrr en einhvern tíma er allt fyrst. Eftir að ég lokaði bankadyrunum á eftir mér, má segja að með þessu nýja verkefni hafi ég vaknað aftur til meðvitundar um að geti gert eitthvað."

Norðurport verður opið frá kl. 11-17 á laugardögum og sunnudögum en Margrét segir að einnig komi til greina að hafa opið á föstudögum. Unnið er að því að setja upp heimasíðu, nordurport.is og þar getur fólk fengið upplýsingar um starfsemina og pantað sér pláss í húsnæðinu. Margrét vildi árétta að aðeins fáir söluaðilar taki við greiðslukortum.

Nýjast