Norðurorka vill leggja metangaslögn frá sorphaugunum

Norðurorka hefur spurst fyrir um leyfi til að leggja metangaslögn frá gömlu sorphaugunum á Glerárdal að hreinsistöð sem staðsett yrði við vatnsgeymi Norðurorku við Súluveg. Skipulasstjóri leitaði eftir áliti Skipulagsstofnunar á því hvort merkja þurfi gaslögn frá urðunarstað á Glerárdal að hreinsistöðinni inná aðalskipulagsuppdrætti. Lögnin mun liggja um 12 m frá Súluveginum sunnanverðum og meðfram honum frá urðunarstað að vatnsgeymi þar sem hreinsistöðin mun standa. Niðurstaða skipulagsstofnunar er sú að ekki er talin þörf á að breyta aðalskipulagi vegna framkvæmda við lögnina þar sem svipaðar lagnir sem tilheyra dreifikerfum annarra veitukerfa eru ekki háðar aðalskipulagsákvæðum, en gera þarf deiliskipulag vegna staðsetningar hreinsi- og afgreiðslustöðvar. Stofnunin bendir einnig á að framkvæmdin er háð framkvæmdaleyfi Akureyrarbæjar, segir í bókun frá fundi skipulagsnefndar í vikunni.

Einnig kemur fram í fundargerð skipulagsnefndar að Mannvit ehf. hafi fyrir hönd  Norðurorku hefur sent Skipulagsstofnun tilkynningu um framkvæmd vegna fyrirhugaðrar metangasleiðslu meðfram Súluvegi, skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Stofnunin óskaði eftir því að Akureyrarbær gæfi umsögn um hvort og á hvaða forsendum ofangreind framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsnefnd telur að framkvæmdir vegna lagningar metangasleiðslu og rask henni fylgjandi séu óverulegar og afturkræfar og skulu því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

 

Nýjast